131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:34]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hinn ágæti þingmaður, hv. þm. Birkir J. Jónsson, er Íslandsmeistari í brids. En núna setti hann annað Íslandsmet. Hv. þingmaður kom hingað og sagði að það væri flokksþingssamþykkt fyrir því hjá Framsóknarflokknum að lækka ætti matarskattinn. En hann sagði að því miður kæmu menn ekki öllu í gegn.

Herra forseti. Hver er fyrirstaðan gegn því að matarskatturinn verði tekinn í gegnum Alþingi? Samfylkingin styður það, Vinstri grænir styðja það, Sjálfstæðisflokkurinn styður það, Frjálslyndi flokkurinn styður það, svo kemur hv. þingmaður og kvartar undan því að það sé fyrirstaða. Er þetta ekki Íslandsmet, herra forseti?

Ég hef aldrei heyrt nokkurn þingmann fara í svo stóran hring í kringum sjálfan sig og sinn eigin málstað og hv. þingmann rétt áðan.

En hv. þingmaður, til hamingju með þetta Íslandsmet. Það verður seint slegið.