131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:42]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var flutt merkileg ræða af hv. formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég veit ekki betur en að aðilar á fjármálamarkaði og þjóðarbúið í heild sinni hafi notið útrásar íslenskra fyrirtækja. Hv. þingmaður segist vera á móti því, að það sé mikið áhyggjuefni að íslensk fyrirtæki séu að styrkjast og eflast og skili þar af leiðandi hærri fjármunum inn í íslenskt þjóðarbú.

Hér erum við hv. þingmaður ósammála í grundvallaratriðum. Þegar hann talar um það að fyrirtækin séu að flytja úr landi þá væri trúlega meira um það. Ef skattastefna Vinstri grænna væri við lýði, ekki með 18% tekjuskatti á fyrirtækin heldur örugglega miklu hærri skatti, þá færu fyrirtækin fyrst að flýja land. Ég veit ekki betur en að fyrirtæki séu jafnvel að keppast um að komast inn á þennan markað. Ég veit að hæstv. viðskiptaráðherra hefur verið í samtölum við erlenda aðila sem vilja koma til Íslands.