131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:04]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er orðið nokkuð löng umræða en málið er stórt, ég ætla ekki að gera lítið úr því, og mér finnst því full ástæða til að segja hér fáein orð. Þetta er ekki eitt af málum ríkisstjórnarinnar, þetta er kosningamálið, aðalkosningamál ríkisstjórnarinnar og löngu boðuð tíðindi sem hér eru á ferðinni og margt merkilegt er auðvitað hægt að segja um það.

Það eru í raun og veru fjögur mál sem hér er aðallega um að ræða, að mér finnst. Það er hækkun persónuafsláttarins sem mér finnst kannski vera það sem ég vil helst taka undir af því sem hér er sett fram. Það eru barnabæturnar sem er auðvitað löngu tímabært að gerð verði breyting á, enda hefur núverandi ríkisstjórn gengið langt fram úr hófi í því að skerða þær á undanförnum árum. Síðan er það tekjuskattsbreytingin sem í sjálfu sér er miklu meira umdeiluefni en þau tvö sem ég nefndi á undan. Og loks vil ég telja með hátekjuskattsbreytinguna sem hefur að vísu verið samþykkt áður en er auðvitað hluti af þeirri skattstefnu sem hér er um að ræða.

Af því að hv. þm. Pétur Blöndal er kominn í gættina vil ég nefna að hann hefur lýst yfir miklum fögnuði hér oft í dag með frumvarpið (PHB: Og ástæða til.) og mig undrar það svo sem ekki, vegna þess að hv. þingmaður hefur barist fyrir skattalækkunum frá því hann kom inn á þing og kannski löngu áður en það varð.

Hægt er að hafa margar skoðanir á því í hvaða röð eigi að vinna slík mál. Ég hef þá skoðun að ríkisstjórnin sé að fara ranga leið í þessu máli. Í fyrsta lagi finnst mér hún ekki fara tæknilega rétt að málinu. Mér finnst ekki rétt að setja í lagatexta og setja lög á Alþingi um að þessar breytingar gangi allar fram hvað sem á gengur í samfélaginu. Mér finnst að það hefði verið alveg nóg að ríkisstjórnin hefði gefið yfirlýsingu um að hverju hún stefndi og framkvæmdi það síðan í áföngum og veldi þau skref af kostgæfni ár hvert sem hægt væri að taka. En hér er verið að efna kosningaloforð og ekki bara það, verið er að efna samkomulag um ríkisstjórn. Þess vegna þarf að lista þetta allt saman upp, allt skal vera skjalfest sem gera á. Þetta er svona einna líkast því þegar fer að kólna milli hjóna en þá eru stundum gerðir kaupmálar, allt skrifað niður hvernig skuli skipt. Ríkisstjórnin virðist hafa þurft á því að halda að allt væri skjalfest og sett yrðu lög um allt heila klabbið og ekki neitt látið niður falla. Þó hefur ekki allt skilað sér af því sem menn ætluðu. Hvar er virðisaukaskatturinn sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að breyta? Hann hefur ekki komið hér fram. Barnakortin eru ekki á dagskrá og ótekjutengdu barnabæturnar upp að 16 ára aldri eru ekki heldur hér á ferðinni. Svo eitthvað hefur vantað upp á, en það liggur fyrir um hvað náðist samkomulag og það skal gert hvað sem tautar og raular.

Ég er ekki að mæla á móti því að menn standi við kosningaloforð sín (PHB: Stefnufesta.) en stefnufestan má ekki vera á kostnað skynseminnar. Ég hef sagt það hér áður að stundum standa flokkar frammi fyrir því. Mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn standa frammi fyrir því að standa annaðhvort við kosningaloforð sín eða yfirlýsingarnar um að stunda ábyrga fjármálastjórn í fjármálum ríkisins. Það kann að vera að menn þurfi að standa frammi fyrir því áður en kjörtímabilið líður vegna þess að hér er teflt á tæpt vað, 22 milljarðar á ári a.m.k. samkvæmt bestu manna yfirsýn og allt á spádómum byggt.

Við höfum fylgst með því hvernig hagfræðingar og aðrir slíkir þjóðfélagsspekúlantar hafa spáð fyrir um hver framvindan yrði á næsta ári eða næstu missirum og það hefur stundum skeikað miklu hver hefur svo orðið niðurstaðan, hvað þá heldur þegar menn eru farnir að spá út allt kjörtímabilið eins og núna, þrjú ár fram í tímann. Það er allt óhætt samkvæmt því sem hér stendur.

Við vitum að spennan í samfélaginu getur varað lengur en gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu og þá er líka umhugsunarefni hvort það er á hana bætandi með þeim hætti sem hér er verið að gera. Ég spyr vegna þess að eins og venjulega virðast menn fyrst finna framkvæmdir í vegamálum til að skera niður og minnka, og þegar við bætast viðbótarframkvæmdir fram yfir þær sem gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu gætum við staðið frammi fyrir því að það yrði gert verulega minna í vegamálum til framtíðar en verið hefur fram að þessu. Mér finnst það vera hrollvekjandi tilhugsun ef svo verður, a.m.k. hvað varðar kjördæmið sem ég er þingmaður fyrir.

Síðan er auðvitað hvernig þessu hefur verið skipt. Það er bara eins og það hefur verið, það er allt á sömu bókina lært. Ríkisstjórnin hefur séð til þess að þeir sem hafa haft það best í samfélaginu hafa fengið mest til sín. Það er engin breyting í heildina á þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir hvað það varðar. Niðurstaðan er sú að við sem erum með tekjur sem alþingismenn eða aðrir slíkir, fáum margfaldar skattbreytingar í okkar vasa miðað við þá sem eru með lægri tekjur.

Mér finnst þess vegna þrátt fyrir allt sem framsóknarmenn hafa látið út úr sér, þó að þeir hafi ekki talað margir, að það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem hafi ráðið ferðinni og hann hafi unnið hér einhvern sinn stærsta happdrættisvinning. Hann hefur náð fram breytingu í skattamálum sem aldrei fyrr, meira að segja því að eignarskattarnir eru gjörsamlega lagðir af. Ég er viss um að suma af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og kannski marga, óraði aldrei fyrir því að þeir mundu ná því í gegn að leggja af eignarskatta í landinu eins og þeir leggja sig. Ég held að það hafi kannski ekki verið það líklegasta hér að sú yrði niðurstaðan eins og nú liggur fyrir.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í andsvari áðan, að það er ekkert sjálfsagt mál að þeir sem eiga gríðarmiklar eignir komi ekki til með að láta neitt til samfélagsins. Það stendur meira að segja upp úr þeim sumum hverjum á góðum stundum að það eigi að vera hlutverk þeirra en þeir þurfi helst að velja það sjálfir í hvaða verkefni þeir beini fjármunum sínum í samfélaginu. Það er önnur saga.

Það þyrfti kannski að svara þeirri spurningu hvort þetta sé skynsamlegt núna. Ég tel að það sé skynsamlegt frá hendi ríkisstjórnarinnar að lýsa yfir stefnu sinni. Mér finnst hins vegar ekki skynsamlegt að ganga frá málum með eins endanlegum hætti og hér er gert. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst afar óskynsamlegt af ríkisstjórninni að ögra millitekju- og lágtekjufólki og aðilum vinnumarkaðarins með þeim hætti sem hér er gert.

Það er nýbúið að skrifa undir samninga við grunnskólakennara en ekki liggur fyrir hvort þeir verða samþykktir af kennurunum. Þeir samningar eru þrátt fyrir óánægju grunnskólakennara að gefa töluverða hækkun, miklu meiri hækkun en samið var um á almenna vinnumarkaðnum í fyrra. Á undanförnum árum hefur það verið hlutverk ASÍ, BSRB og almennra aðila á vinnumarkaðnum að halda uppi því sem menn kalla stöðugleika í landinu. Það þarf að verja þann stöðugleika.

Er þetta útspil inn í það að verja stöðugleikann? Ég segi að þetta er ekki útspil inn í það, einfaldlega vegna þess að þarna er verið að skila margfalt ríflegar fjármunum til þeirra sem hafa miklu meiri tekjur en til hinna. Það kallar á viðbrögð frá þeim sem eiga að fara með mál fyrir hönd verkalýðsfélaganna í landinu að rétta þetta af og semja með tilliti til þess sem hér er búið að ákveða að gera.

Það verður auðvitað verkefni verkalýðsfélaganna að ná fram kjarabótum til að rétta það af sem hallast á hér á Alþingi. Það getur ekki verið að verkalýðsfélögin þoli endalaust að mokað sé öðrum megin á vogina eins og gert hefur verið fram að þessu.

Svo er annað sem mér finnst að hefði þurft að liggja fyrir og að ríkisstjórnin hefði þurft að gera um leið og hún tók ákvarðanir um það hverju hún ætlaði að stefna að í skattamálunum og það er hvernig ætti að leysa úr skattamálum fyrir sveitarfélögin. Er þessi 4% tekjuskattslækkun sem hér liggur fyrir kannski öðrum þræði hugsuð sem svigrúm fyrir sveitarfélögin til að fá hækkun á útsvarinu? Ég held að menn þurfi e.t.v. að standa frammi fyrir því að fleiri sveitarfélög en Reykjavíkurborg þurfi að hækka gjöldin sín og fá hærra útsvar. Kannski stendur ríkisstjórnin og Alþingi frammi fyrir því að auka svigrúm þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa það, eins og þó Reykjavíkurborg hefur, til að fá auknar tekjur. Kannski hefur það verið hugsunin hjá ríkisstjórninni að með þessari 4% tekjuskattslækkun yrði búið til svigrúm handa sveitarfélögunum til að hækka útsvarið. Það væri gott að fá svar við því hér, eða hvað það er sem menn ætla þá að gera annað til að koma til móts við sveitarfélögin.

Ég nefndi áðan samgöngurnar. Hvar kemur annars aðhald fram, eins og það hefur verið kallað hér í dag, í ríkisrekstrinum? Stærstu fjármunirnir sem þar hafa verið nefndir eru í sambandi við samgöngur. Annars virðist aðhaldið fyrst og fremst beinast að því að halda aftur af auknum útgjöldum til heilbrigðismála. Mér finnst að á sama tíma og við fjöllum um 22 milljarða lækkun skatta sé nánast ömurlegt að heyra kvein utan úr samfélaginu um að ekki sé hægt að reka sjúkrastofnanir og það þurfi að fara að stöðva af þjónustu við þá sem ömurlegast hafa það í samfélaginu.

Við sáum yfirlýsingarnar frá forsvarsmanni SÁÁ og við höfum séð þær vegna sjúkrastofnananna, t.d. Landspítalans. Við höfum séð auglýsinguna sem öryrkjar hafa birt núna til að minna á sig og að ekki hefur verið staðið við samningana við þá.

Mér finnst menn þurfa að hafa þetta allt saman í huga þegar þeir taka ákvarðanir sem eru svona stórar í sniðum. En þá er þetta skilið eftir. Það er undarlegt að þegar svo stórir hlutir eru uppi á borðinu eins og þessi skattamál skuli menn ekki um leið gera grein fyrir því hvað standi til að gera vegna sveitarfélaganna.

Það er auðvitað, eins og ég sagði hér í upphafi, svo sem gleðilegt og gott mál að menn sjái möguleika á skattalækkunum og sumt af þessu er alveg viðunandi, það sem hér er verið að gera, eins og ég sagði áðan. Ég ætla ekki að hafa hér langa ræðu. Mér finnst það samt þurfa að vera lokaorð mín að mér finnst ömurlegt að menn sem vilja fylgja fram þeirri skattstefnu sem hér er boðuð skuli vilja halda áfram að skattleggja nánast eyri ekkjunnar. Það er þannig, hvernig sem á það er litið.

Mér fannst dálítið athyglisvert að hlusta á umræður hér í dag þar sem t.d. hv. þm. Pétur Blöndal spurði ítrekað hvort menn ættu ekki tekjurnar sínar. Það væri ástæða til að spyrja á móti: Ef menn líta svo á að allir eigi að standa jafnir gagnvart skattinum, hvað hefði þá verið hægt að leggja á menn hvað skatta varðar? Áttu þá allir að borga jafnt, hversu lítið eða mikið þeir höfðu þénað?

Auðvitað hefði aldrei verið hægt að byggja upp það samfélag sem við höfum hér öðruvísi en að leggja skatta á þá sem geta borgað. Það er lítið gagn að því að leggja skatta á hina sem ekki geta það. Mér finnst það orðin svolítið skrýtin umræða um skattamál ef hún á að ganga út á það að allir verði að vera jafnir fyrir þeim.

Auðvitað er hægt að líta á þetta mál ýmsum augum. En ég legg áherslu á að íslenskt samfélag hefur verið byggt á því að hér væri samfélag sem hefði samúð með þeim sem minna mega sín og þess vegna hlytu menn að þurfa að sjá til þess að þeir sem hafa lágar tekjur hafi eðlilegt lífsframfæri, og til þess að það sé hægt þurfa þeir sem hafa hærri tekjurnar að borga meira. Það að menn hafi ekki hvatningu til að þéna vegna skattpíningar á Íslandi gef ég nú ekki mikið fyrir. Ég tel að skattáþján á Íslandi sé ekki svo mikil að hún hafi staðið í vegi fyrir því að menn ynnu fyrir sér, það er af og frá.

Einu dæmin sem ég tel raunhæf um það að skattstefna hafi haft áhrif á tekjuöflun manna eru þegar fólk hefur svo lágar tekjur að bætur sem það fær eru litlu lægri og hafa orðið til þess að fólk hefur ekki haft nokkurn skapaðan hlut út úr því að vinna. Þá hefur það getað orðið til þess að fólk hefur dregið úr eða hætt að vinna. En það að menn sem þéna vel hafi dregið úr vinnu vegna skattáþjánar er fátítt á Íslandi.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Við fáum tækifæri til að ræða málið síðar. Ég endurtek bara í lokin að mér finnst að ríkisstjórnin hafi sýnt ákveðinn veikleika með því að þurfa að negla þetta allt saman svona niður og að hún hafi í raun og veru opinberað það að það hafi þurft að skipta þessu gjörsamlega á milli flokkana, skrifa það allt á blað og koma því í gegnum þingið. Menn hafa ekki treyst hverjir öðrum til þess að gera þetta eðlilega, þ.e. í áföngum þar sem menn hafa verið búnir að sjá fyrir hvað væri hægt að gera. Menn sjá ekki fyrir í dag hvað hægt er að gera eftir þrjú ár, hvort þá verður óhætt að taka 22 milljarða frá ríkissjóði. Það vita menn ekki núna.