131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:24]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að ríkisstjórnin ætti að gefa yfirlýsingu í staðinn fyrir að festa þetta niður í lögum og nefnir í því sambandi kaupmála milli hjóna sem settur sé á þegar kólna fer á milli hjónanna. Sennilega er kaupmáli í 99% tilfella gerður fyrir giftinguna til þess að hafa alveg á tæru hvernig skiptin verða, ef til þeirra kemur, til að hjónabandið geti nú gengið vel og að allir séu meðvitaðir um hvernig eignum skuli skipt.

Til þess erum við yfirleitt að setja þessi lög, ef Alþingi samþykkir þau, að allt sé á hreinu um hvernig málin ganga fram, til að allir viti að hverju þeir ganga og að ekki séu nein lausatök neins staðar. Launþegar vita að þeir fá þessa skattalækkun, kennarar þar á meðal. Með 1% sparar kennarinn sér 30 þús. kr. á ári. Það er líka peningur. Við 2% lækkun eru það 60 þús. kr. og að lokum fær kennarinn, sem er með 250 þús. kall á mánuði, 120 þús. kr. á ári í skattalækkun við 4% lækkun. Það er líka peningur, herra forseti, og ánægjulegt.

Hv. þingmaður talar um að hátekjufólkið fái sérstaklega mikið og láglaunafólkið fái lítið. Mig langar til að spyrja: Eru lág laun einhvers konar persónueinkenni, óumbreytanleg? Getur maður sagt: Hann er bláeygur og láglaunamaður? Auðvitað getum við breytt því og hver maður á að geta breytt því og menn eiga að geta fengið hærri tekjur. Markmið okkar er að fólk sé með háar tekjur og sé hvatt til þess að hafa háar tekjur. Til þess erum við að lækka skattana að það sé hvatning fyrir almenning til að fá háar tekjur.

Það var sérstaklega gaman að heyra hv. þingmann tala um eyri ekkjunnar. Við erum einmitt að lækka eignarskatt, fella niður skatt af ekkjunum, ekkjunum sem sitja í stóru eignunum. Við erum að hætta að hirða af þeim eyrinn.