131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veggjöld.

149. mál
[12:12]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hvalfjarðargöng hafa reynst ákaflega hagkvæm framkvæmd fyrir vegfarendur. Þau hafa árlega sparað þeim háar fjárhæðir síðan þau voru tekin í notkun, líklega yfir 1 milljarð króna á ári. Sparnaðurinn rennur til umferðar á Vesturlandi, eða 40%, svipuð fjárhæð rennur til umferðar á höfuðborgarsvæðinu og um 20% til umferðar á Vestfjörðum og Norðurlandi. Það er alveg ljóst að ávinningurinn er mikill hvað varðar umferðarkostnað, vöruverð, fasteignaverð, landaverð o.fl., sérstaklega á Vesturlandi.

Athugun hefur leitt í ljós að það að fella niður gjaldið mundi líka hafa mjög mikil jákvæð áhrif, byggðalega séð, á öllum þeim þáttum sem ég nefndi. Að mínu mati yrði það stærsta og mesta byggðaaðgerðin fyrir vestanvert landið sem ríkisstjórnin gæti gripið til á skömmum tíma að fella niður þetta gjald.