131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fjarskiptasamband við Ísafjarðardjúp.

310. mál
[12:35]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er með hefðbundnu sniði og það er satt að segja ekki ónýtt fyrir hinar dreifðu byggðir að eiga svo öfluga talsmenn í ræðustól á Alþingi sem vekja athygli á nauðsyn þess að tryggja fjarskiptasamband um landið allt. En hins vegar er ekki hægt að gera alla hluti á stundinni.

Það hefur tekist þannig til á Íslandi með uppbyggingu fjarskiptakerfanna, þótt ýmislegt sé ógert, að hvergi í veröldinni er meiri símanotkun, meiri farsímanotkun og hvergi í veröldinni meiri notkun á internettengingum vegna þess hversu hratt hefur verið byggt upp á Íslandi. Þó að við gerum miklar kröfur, ég þar á meðal, þá verðum við hins vegar að viðurkenna þessar staðreyndir. Þeir sem ferðast um önnur lönd og kynna sér aðstæður, jafnvel þingmenn í erlendu samstarfi, átta sig á því að þeir ná ekki alls staðar farsímasambandi. Ég sé að sumir þingmenn kinka kolli.

Við eigum að gera miklar kröfur en mér dettur stundum í hug einn ágætur vinur minn vestan af landi sem sagði jafnan við mig þegar ég fór til þings: „Ja, láttu þá nú hafa það.“ Þannig er umræðan stundum gagnvart Símanum, þessu ágæta fyrirtæki. Það eru gerðar mjög miklar kröfur til fyrirtækisins og mér finnst stundum að þær nálgist mörk hins mögulega í ljósi þess viðskiptaumhverfis sem við búum við og Síminn býr við. Ég geri miklar kröfur til fjarskiptafyrirtækjanna en þær kröfur verða að vera á rökum reistar.