131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:45]

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er sannarlega tæpt á mikilvægu málefni og þakka ber fyrirspyrjanda að vekja máls á því. Það verður að taka fram eins og hæstv. heilbrigðisráðherra gerði í svari sínu að það var loforð um milljarð og staðið við milljarð. Þessi málefni heyra undir fleiri ráðuneyti en það sem hann stýrir og því er í fyrirspurn sem beint er til hans kannski ekki hægt að ætlast til að hann telji fram framlög annarra ráðuneyta.

En af því að vakin var athygli á stöðu SÁÁ er líka rétt að það komi fram í umræðu á hinu háa Alþingi að framlög til SÁÁ hafa aukist úr því að vera 219 millj. árið 1997 upp í að það stefnir í að á næsta ári verði þau 499 millj. þannig að það má sannarlega segja að yfirvöld hafi reynt að sporna við þessum vanda.

Svo má líka benda þingheimi á að hér var samþykkt á sínum tíma frumvarp um Lýðheilsustöð þar sem forvarnaráðin öll voru sameinuð í þeim tilgangi einmitt að styrkja og efla enn frekar þá forvarnastarfsemi sem fram fer í landinu.