131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Afsláttarkort.

108. mál
[12:54]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrsta fyrirspurnin sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir beinir til mín er svohljóðandi:

„Hversu margir þeirra sem hafa greitt umfram hámark fyrir læknisþjónustu hafa sótt um afsláttarkort síðustu þrjú árin?“

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins gaf stofnunin út samtals 26.840 afsláttarkort á árinu 2001 en á árinu 2003 voru þau orðin 33.717. Þannig hefur útgefnum afsláttarkortum á þessum þremur árum fjölgað um fjórðung. Í ár stefnir í að kortunum fjölgi enn og fjöldi þeirra verði á bilinu 34.300–34.400.

Þá er spurt: „Er vitað hvort ákveðnir hópar sjúklinga sækja síður um afsláttarkort en aðrir eftir að réttur til þess hefur skapast?“

Tryggingastofnunin hefur ekki upplýsingar um einstaklinga sem ekki nýta sér rétt sinn til afsláttarkorta og hefur því engin svör við því hvort það séu tilteknir hópar einstaklinga umfram aðra sem ekki nýta rétt sinn. Vísbendingar eru hins vegar um að tilteknir hópar nýti sér ekki endurgreiðslurétt sinn en það kemur fram í rannsóknarniðurstöðum Rúnars Vilhjálmssonar og Guðrúnar V. Sigurðardóttur sem könnuðu dreifingu komugjalda og afsláttarkorta meðal þeirra sem eiga rétt á þeim. Tillögurnar voru kynntar í 5. tölublaði Læknablaðsins í fyrra. Þar er bent á að þetta sé í samræmi við þá staðreynd að endurgreiðslur Tryggingastofnunar vegna afsláttarkortanna séu lágar og hafi numið 75 millj. kr. á árinu 2001 en það er 8 millj. kr. lægri tala en endurgreiðslufjárhæð árið 1998.

Tryggingastofnunin hefur upplýsingar um þá einstaklinga sem sækja um afsláttarkortin. Þannig eru útgefin afsláttarkort til almennra sjúklinga 9.025 árið 2001, 13.587 til lífeyrisþega og 4.228 vegna barna. Þá má gera ráð fyrir að útgefin kort til almennra sjúklinga verði 13.640, 15.520 til lífeyrisþega og 5.560 vegna barna í ár. Þetta fjögurra ára tímabil er fjölgunin því hlutfallslega mest meðal almennra sjúklinga eða um 51%, 22% í útgefnum kortum vegna barna og ríflega 14% í útgefnum kortum til lífeyrisþega. Aukning í útgáfu korta er því umtalsverð frá árinu 2001 eða sem nemur 27–28% en aukningin bendir til þess að einstaklingar nýti sér rétt til afsláttarkorta í ríkara mæli en áður.

Í ár er gert ráð fyrir að endurgreiðsla vegna útgáfu afsláttarkorta verði um 160 millj. kr. og það er um tvöföldun í endurgreiðslu frá árinu 2001. Skýringa er án efa að leita til þeirra staðreynda að nú er það eðli málsins samkvæmt regla að heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum, hjá sérfræðilæknum og annars staðar þar sem sjúklingur sækir sér þjónustu að spyrja viðkomandi hvort hann eða hún sé með afsláttarkort. Þannig eru einstaklingar með beinum og áberandi hætti minntir reglulega á rétt sinn og vaktir til umhugsunar um rétt sinn áður en þeir greiða þjónustuna.

Í þriðja og síðasta lagi er spurt:

„Eru áform um að auðvelda þeim að nýta sér þennan rétt sem ekki geta vegna sjúkdóms eða fötlunar borið sig eftir honum?“

Eins og áður hefur komið fram þekkir Tryggingastofnun ekki þá sem ekki nýta sér rétt til afsláttarskírteina. Stofnuninni er hins vegar falið með reglugerð að kynna almenningi reglur um afsláttarskírteini, sbr. 1. gr. reglugerðar 981/2003, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Leitað hefur verið eftir upplýsingum um hvernig stofnunin stendur að kynningu á afsláttarskírteinum og í svari stofnunarinnar segir að Tryggingastofnun ríkisins gefi út bæklinga þar sem upplýst er um afsláttarskírteinin. Bæklingarnir liggi frammi á flestum læknastöðvum og víðar. Einnig megi finna upplýsingar um skírteinin á heimasíðu stofnunarinnar. Þá hafi stofnunin gefið út spjöld sem send hafi verið læknastöðvum þar sem fram koma upplýsingar um greiðslu sjúklinga fyrir læknisþjónustu með og án afsláttarskírteina. Spjöldin hanga mjög víða uppi.

Ég tel að Tryggingastofnun ríkisins hafi sinnt og sinni upplýsingaskyldu sinni við almenning nokkuð vel þó ætíð megi deila um hversu umfangsmikil slík kynning eigi að vera. Það mætti hugsa sér samkeyrslu á upplýsingum þannig að TR og heilbrigðisstofnanir hefðu beinan aðgang að upplýsingum um einstaklinginn svo lesa mætti út rétt viðkomandi en Tryggingastofnun getur ekki gefið upplýsingar um komu sjúklinga á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús þar sem hún hefur ekki heimildir til að afla slíkra upplýsinga. Samkeyrsla upplýsinga Tryggingastofnunar og heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa er viðkvæmt persónuverndarmál og því þarfnast slíkt vandlegrar skoðunar áður en óskað er eftir slíkum heimildum fyrir stofnunina. Núverandi fyrirkomulag afsláttarskírteina er með þeim hætti að það getur uppfyllt það markmið sem skírteinunum er ætlað en verið er að skoða þær ábendingar sem bent er á í greininni sem ég vitnaði til.