131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.

113. mál
[13:04]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í haust birtist viðtal í Fréttablaðinu við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður undir yfirskriftinni Hrikaleg misþyrming kvenna. Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Vel má búast við því að hér á landi fari umskornar konur innan tíðar að mæta á fæðingardeildir sjúkrahúsa til að fæða börn. Við verðum að fara að búa okkur undir það.“

Áslaug hefur reynslu af því að taka á móti börnum umskorinna kvenna í Danmörku en þangað flutti mikill fjöldi flóttamanna frá Sómalíu upp úr 1997. Áslaug hafði lesið sér til þegar hún fékk fyrstu umskornu konuna til sín og var því að einhverju leyti undirbúin. Engu að síður segist hún hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli þegar raunveruleikinn blasti við. „Ég var lengi að ná mér. Þetta er hrikaleg misþyrming á konum.“

Í Danmörku fara umskornar konur jafnan í gegnum ákveðna fræðsludagskrá þar sem þær fá m.a. fræðslu um það hvernig eðlileg kynfæri líta út. Eiginmönnum þeirra og fjölskyldum er að jafnaði boðið með í fræðsluna því hefðin er svo sterk að engan veginn er nóg að fræða konurnar einar. Áslaug segir nauðsynlegt að skipuleggja einhvers konar fræðslu hér á landi bæði fyrir ljósmæður og lækna og ekki síður fyrir umskornar konur og fjölskyldur þeirra.

Vegna ummæla Áslaugar legg ég fram fyrirspurn á Alþingi fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra sem hljóðar svo: Hefur starfsfólk í heilbrigðiskerfinu verið undirbúið sérstaklega undir móttöku og þjónustu við konur sem hafa verið umskornar? Ef svo er, hvaða starfsfólk og í hverju hefur undirbúningurinn falist?