131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.

113. mál
[13:11]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni. Þetta er mjög alvarlegt mál og óverjandi misþyrming sem felst í þessari aðgerð. Ég fagna því að kvennadeild Landspítalans sé farin að huga að þjónustu við þennan hóp. Samkvæmt umræðu sem var hérna áður um þessi málefni kom fram að ekki er vitað til þess að þetta hafi verið gert hér á landi, en auðvitað má búast við því að það gerist hér eins og annars staðar á Norðurlöndum, þar sem vitað er að þetta gerist, og vissulega þarf að samþykkja frumvarp í þá veru sem liggur fyrir þinginu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einnig séu uppi áform um að veita þessum konum og fjölskyldum þeirra fræðslu, eins og Áslaug Hauksdóttir minntist á í viðtalinu sem ég vísaði til áðan og veitt er í Danmörku. Ég geri ráð fyrir að menn horfi til annarra landa, eins og kom raunar fram hjá hæstv. ráðherra, en mikilvægt er að það sé fræðsla til fjölskyldnanna, til kvennanna, að læknarnir séu viðbúnir, hjúkrunarfræðingarnir, ljósmæður og allir sem koma að þessum málum. Vissulega fagna ég því að menn eru farnir að huga að þessari þjónustu og verði viðbúnir ef og þegar menn þurfa að taka á móti og veita þjónustu konum sem hafa orðið fyrir þessari hryllilegu misþyrmingu.