131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.

113. mál
[13:13]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta alvarlega mál. Spurt hefur verið hvort við vitum til þess að konur séu umskornar á Íslandi. Ég svaraði fyrirspurn um þetta frá hv. þm. Valdimar Friðrikssyni á síðasta þingi. Þá höfðum við ekki vitneskju um það og við höfum ekki fengið neina vitneskju sem bendir til þess, sem betur fer. Ég tók fram í svari mínu við þeirri fyrirspurn að túlkun okkar er samkvæmt læknalögum og að samkvæmt íslenskum heilbrigðislögum er þetta líkamsárás. Umskurður kvenna er ólöglegur hér á landi þannig að samkvæmt íslenskum læknalögum er ólöglegt að umskera konur og vonandi er það ekki staðreynd að sá verknaður sé framinn.

Það er ástæða til að halda vöku sinni í þessum efnum og ég heyri að hv. þingmenn hafa áhuga á því enda er þetta líklega þriðja fyrirspurnin sem ég svara um málið á Alþingi. Ég tel að það sé full ástæða til þess ef þessi alvarlegu tilvik koma upp hér að veita fræðslu og kalla til þá sem eru bærir til að veita hana, væntanlega heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel félagsráðgjafa. Sem betur fer hefur ekki enn þá komið upp tilfelli svo við vitum til um þetta mál, en ég tek undir að ástæða er til að halda vöku sinni í eins alvarlegu máli og þessu.