131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Grunnafjörður.

218. mál
[13:15]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Kapla hf. hyggst reisa rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði. Áætlað er að ársframleiðsla verði allt að 340 þúsund tonn af bökuðum rafskautum.

Lagt hefur verið mat á umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar lögum samkvæmt og hefur Skipulagsstofnun fyrir sitt leyti gefið grænt ljós á framkvæmdina, þó að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ýmislegt hefur reyndar breyst síðan það mat fór fram og m.a. hefur komið í ljós að Alcoa hyggst reisa eigin rafskautaverksmiðju í Noregi vegna uppbyggingar álvers í Reyðarfirði sem þýðir að óvíst er um kaupendur alls þess magns rafskauta sem fyrirhugað er að baka á Katanesi.

Hér verður ekki fjölyrt um viðskiptahlið þessa máls nema að segja að það er von fyrirspyrjanda að iðnaðarráðuneytið sjáist fyrir í þessu efni, enda óljóst um hagnaðarvon, þótt það eigi sjálft frumkvæði að því að reisa þessa verksmiðju á Katanesi í Hvalfirði.

Fyrirspurn mín varðar Grunnafjörð. Innan þynningarsvæðis fyrirhugaðrar verksmiðju er Eiðisvatn en af því er afrennsli yfir í Grunnafjörð í Borgarfirði. Grunnafjörður er eins og kunnugt er á skrá Ramsar yfir votlendissvæði sem hafa alþjóðlegt gildi og ber að vernda sérstaklega. Í Grunnafirði í Borgarfirði eru víðáttumiklar leirur með miklu fuglalífi. Þar er viðkomustaður farfugla.

Þær upplýsingar liggja fyrir að í umhverfisráðuneytinu sé gerð verndaráætlunar samkvæmt Ramsar-samþykktinni fyrir Grunnafjörð ekki hafin þótt hann hafi verið settur á þennan lista árið 1996, að ég best man. Fyrir liggur við núverandi aðstæður að frekari náttúrurannsókna er þörf í firðinum, en í vor var því haldið fram af hæstv. þáverandi umhverfisráðherra að ekkert sem vitað væri um núna ógnaði vistkerfinu í Grunnafirði. Það gæti hins vegar breyst, frú forseti, ef fyrirætlanir um rafskautaverksmiðju á Katanesi verða að veruleika. Má nefna að útblástur ýmissa efna mun aukast mjög verði þessi verksmiðja reist, m.a. svokallaðra PAH-efna sem nokkur ótti er af og lítið er vitað um nema að þau hafa álíka virkan og þrávirk efni og gildi þeirra verður nokkuð hátt samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja.

Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra, en ráðuneyti hennar hefur haft forgöngu um að fá aðila til þess að reisa þessa verksmiðju, hvort hún telji að uppbygging rafskautaverksmiðju á Katanesi samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt Ramsar-samþykktinni, í ljósi þess að Eiðisvatn, sem er innan þynningarsvæðisins, hefur afrennsli í Grunnafjörð.