131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Grunnafjörður.

218. mál
[13:19]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Grunnafjörður er utan núverandi þynningarsvæðis, iðnaðarsvæðisins á Grundartanga, en hluti Eiðisvatns er innan þynningarsvæðisins. Afrennsli Eiðisvatns er Urriðaá sem rennur í Grunnafjörð. Ekki er þörf á að stækka þynningarsvæðið með tilkomu rafskautaverksmiðjunnar þar sem útblástur frá verksmiðjunni gefur ekki tilefni til slíks. Þó er gerð tillaga um minni háttar stækkun þynningarsvæðisins til norðausturs þannig að lóð rafskautaverksmiðjunnar verði innan þess. Tilkoma rafskautaverksmiðjunnar breytir því engu um þann hluta þynningarsvæðisins sem nær út á Eiðisvatn nú þegar. Stæði rafskautaverksmiðjan ein og sér væri ekki þörf á sérstöku þynningarsvæði umhverfis hana. Viðbætur við meðalstyrk brennisteinstvíoxíðs vegna losunar við það sem nú þegar er leyft á iðnaðarsvæðinu eru um 7% og um 5% vegna flúors. Styrkur svifryks af völdum rafskautaverksmiðjunnar verður vel innan marka jafnt utan sem innan þynningarsvæðis. Það sama á við um styrk köfnunarefnisoxíða. Rafskautaverksmiðjan breytir því mjög litlu um styrk þessara efna innan þynningarsvæðisins frá því sem nú þegar er leyft.

Hlutfallsleg aukning mengunarefna á Grundartangasvæðinu verður mest á svokölluðum PAH-efnum sem eru fjölhringa kolvetnissambönd. Ekki eru til umhverfismörk fyrir PAH-efni hér á landi en við mat á umhverfisáhrifum var stuðst við ströngustu mörk sem þekkjast í Evrópu og verður styrkur PAH-efna alls staðar innan þeirra marka.

Þess má geta að í tillögum Evrópusambandsins frá 2003 um styrk nokkurra mengunarefna í andrúmslofti er gert ráð fyrir mörkum fyrir PAH-efni sem eru tíu sinnum hærri en þau sem miðað er við í mati á umhverfisáhrifum rafskautaverksmiðjunnar.

Í mati á umhverfisáhrifum og úrskurði skipulagsstjóra er gert ráð fyrir að styrkur mengunarefna verði vaktaður. Meðal annars verður styrkur PAH-efna í Grunnafirði, Urriðaá og Eiðisvatni vaktaður sérstaklega bæði áður en verksmiðjan tekur til starfa og eftir að starfsemi hefst. Nánari ákvörðun um vöktun þar verður tekin í samráði við Umhverfisstofnun.

Ekki verður séð annað en að fyrirhuguð bygging og rekstur rafskautaverksmiðju samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt Ramsar-sáttmálanum.