131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:33]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur beint þeirri fyrirspurn til mín hvernig bregðast eigi við niðurstöðu þeirrar þjóðmálakönnunar í Eyjafirði sem kynnt hefur verið.

Ýmislegt jákvætt kemur fram í könnuninni, t.d. að 100% Grímseyinga hafa trú á jákvæðri þróun byggðarlagsins. Einnig kemur fram að 80% eða fleiri íbúar Grýtubakkahrepps, Húsavíkurbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Hörgárbyggðar, Þingeyjarsveitar, Akureyrarkaupstaðar, Aðaldælahrepps og Arnarneshrepps hafa trú á jákvæðri þróun eigin byggðarlags á næstu árum.

Það veldur þó áhyggjum að samkvæmt könnuninni trúa einungis 40% íbúa Ólafsfjarðarbæjar á jákvæða þróun eigin byggðarlags á næstu árum.

Annað sem kom fram í könnuninni er að fólk virðist í töluverðum mæli telja líklegt að það flytji búferlum á næstu árum. Í kjölfar rannsóknarinnar birti Byggðarannsóknastofnun skýrslu sína Bjartsýni og búferlaflutningar. Í skýrslunni kemur fram að ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk ákveður að flytja búferlum. Búferlaflutningar geta verið jákvæðir, bæði fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga sem og fyrir samfélagið í heild. Í mjög mörgum tilvikum kýs fólk að flytja til að afla sér aukinnar menntunar eða til að skipta um starfsvettvang án þess að vera knúið til þess.

Í skýrslunni er sérstaklega bent á að hafa þurfi í huga að með spurningum í könnuninni er verið að kanna hvað viðkomandi telur að geti mögulega gerst í framtíðinni. Ekki er því endilega um það að ræða að þeir sem svara spurningunni játandi hafi uppi ákveðin áform um búferlaflutninga heldur að þeir telji líklegt að til þess kunni að koma.

Hæstv. forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að treysta búsetu í landinu. Hún birtist í núverandi byggðaáætlun og almennri atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Ef litið er á fimm markmið byggðaáætlunarinnar eru þau eftirfarandi:

1. Draga úr mismunun á afkomumöguleikum fólks og skapa sem hagstæðust búsetuskilyrði.

2. Efla sveitarfélögin, styðja við atvinnuþróun, menntun og uppbyggingu grunngerðar þeirra.

3. Efla þau sveitarfélög sem hafa bestu möguleikana til að vaxa og treysta verulega búsetu.

4. Varðveita menningararfleifð og efla menningartengt atvinnulíf.

5. Stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og ástunda sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Þessi fimm markmið liggja til grundvallar þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í en til viðbótar eru í byggðaáætlun skilgreind 22 verkefni til að stuðla að framgangi umræddra markmiða. Eitt af þessum verkefnum er að efla Eyjafjarðarsvæðið og umhverfi þess. Vegna þessa var í október 2002 skipuð fimm manna verkefnisstjórn um byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Henni var falið að gera tillögur til ráðherra um stefnumarkandi byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Nefndin skilaði tillögum sínum í apríl 2004.

Markmið byggðaáætlunar fyrir Eyjafjarðarsvæðið skyldi vera að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem öflugasta þéttbýlissvæði utan höfuðborgarsvæðisins og efla þannig og styrkja byggð á Miðnorðurlandi. Ekki er eingöngu horft á uppbyggingu atvinnulífsins heldur er stefnt að eflingu hvers kyns þjónustu, afþreyingar og menningarstarfsemi.

Í framhaldi af tillögum nefndarinnar var þann 5. júlí sl. skrifað undir vaxtarsamning fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Tekur samningurinn mið af sambærilegum áherslum víða erlendis, m.a. í Finnlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum þar sem lögð er aukin áhersla á að efla ákveðna byggðakjarna og nær hann yfir tímabilið 2004–2007. Hægt er að fullyrða að vaxtarsamningurinn er nýjung hér á landi á sviði byggðamála. Er markmið hans að styrkja sjálfbæran hagvöxt á Eyjafjarðarsvæðinu með markaðstengdum áherslum. Nálæg svæði utan Eyjafjarðarsvæðisins munu njóta þess starfs með beinum og óbeinum hætti.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem kemur fram í þjóðmálakönnun í Eyjafirði, að bjartsýni og jákvæðni ríkir víðast hvar um byggðaþróun, hyggst ég halda áfram að beita mér fyrir framgangi vaxtarsamningsins. Eitt af meginmarkmiðum vaxtarsamningsins er einmitt að efla bjartsýni, drifkraft og jákvæð viðhorf meðal almennings. Af framansögðu er ljóst að stjórnvöld hafa unnið markvisst og hratt að fjölbreyttum og margvíslegum áherslum og verkefnum er miða að því að styrkja samkeppnishæfni og búsetuþróun byggðarlaga, ekki síst á Eyjafjarðarsvæðinu og á Norðurlandi. Fylgst verður þó með á þessu svæði eins og á öðrum svæðum hvað varðar þróun byggðarlaga og atvinnulífs.