131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég man eftir því þegar könnunin var kynnt. Niðurstöðurnar með Grímsey vöktu einmitt athygli mína og mér þóttu þær merkilegar. Ég hef svolítið hugleitt hvernig staðið getur staðið á því að fólk í Grímsey sé svona ánægt og hafi svona mikla trú á framtíðinni á meðan fólk á Siglufirði, Dalvík og Ólafsfirði sé svona svartsýnt.

Gæti það verið vegna þess að Grímsey býr við nokkra einangrun og fólk er látið að mestu leyti í friði fyrir stjórnvöldum þar? Gæti það hugsast? Ég held nefnilega að það gæti verið hluti af skýringunni. Þar fær fólk að njóta atvinnufrelsis, þar fær fólk að njóta auðlinda sinna sem eru fiskimiðin í kringum eyjuna. Hins vegar er mjög erfitt að njóta þess frelsis á Siglufirði, Dalvík og Ólafsfirði þar sem yfirvöld eiga mjög auðvelt með að halda uppi sínum magnaða fjanda sem er eftirlitsiðnaðurinn sem tilheyrir sjávarútveginum og þá er ég sérstaklega að tala um Fiskistofu. Ég held að hundurinn liggi þarna grafinn því að það er ekkert að því að búa á þessum stöðum. Fólk getur verið mjög ánægt og haft það gott þar. Staðirnir búa yfir mörgum kostum en því miður eru margir njörvaðir niður í það mikla fjötra í dag að það er ekkert gaman að búa þar lengur.