131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þjóðmálakönnun í Eyjafirði.

327. mál
[13:45]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg segin saga að ef rædd eru byggðamál hér þá byrja menn alltaf að kalla að þetta sé allt saman kvótakerfinu að kenna. En hvernig hefur þróunin orðið í atvinnumálum þjóðarinnar bæði til sjávar og sveita? Við vitum að það þarf sífellt færri hendur vegna þess að tæknin er orðin svo mikil. Tæknin hefur breyst svo mikið að það þarf miklu færri hendur. Í fiskvinnslufyrirtæki í dag, stóru fiskvinnslufyrirtæki þar sem hafa unnið kannski yfir 100 manns eru kannski tíu manns að vinna sömu vinnu í dag. Þetta er sú þróun sem hefur orðið.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Birkir Jónsson sagði áðan um það sem ríkisstjórnin er að gera. Það er verið að vinna mikið að nýsköpunarmálum. Byggðastofnun er að styðja við ótal verkefni hringinn í kringum landið. Það er aukning í ferðaþjónustu. Það er sá atvinnuvegur sem flestir horfa til núna á landsbyggðinni og hefur reynst mjög vel.