131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[13:58]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en lýsi því jafnframt yfir að það veldur mér vonbrigðum að ekki skuli gengið vasklegar til verks við uppbyggingu Iðnskólans en fram kom í hennar máli.

Hún rifjaði upp samkomulag sem gert hefur verið milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ráðuneytisins um uppbyggingu framhaldsskóla. Reykjavíkurborg hefur ekki einungis sýnt gott frumkvæði og mikið verk við uppbyggingu í grunnskólum í borginni heldur líka með því að hafa tilbúnar lóðir fyrir framhaldsskólana. En þar verður ríkið auðvitað að sýna frumkvæði.

Síðast í morgun var hjá skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar verið að kynna stækkunarmöguleika við Menntaskólann við Hamrahlíð. Mönnum er hins vegar vandi á höndum á Skólavörðuholtinu. Þröngt er um nemendur í Austurbæjarskóla. Hann er yfir 600 barna skóli. Þarna eru tveir leikskólar að auki, safnaðarheimili og kirkja. En í Iðnskólanum eru 2.000 nemendur sem allir koma á bílum. Þessi (Forseti hringir.) umferðarsækna starfsemi ætti kannski betur heima annars staðar.