131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Byggingarmál Iðnskólans í Reykjavík.

237. mál
[14:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um áðan hefur þetta samkomulag og það samstarf sem hefur verið milli ríkis og borgar í þessu máli verið ágætt. Það sem ég vil undirstrika með þessu er að þarna er um samkomulag að ræða og að sjálfsögðu ætlar ríkisvaldið sér ekki að koma með einhliða dírektíf og segja fyrir um nákvæmlega hvernig eigi að framkvæma það samkomulag sem var gert fyrir rúmu ári.

Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að það er afar mikilvægt og brýnt, í ljósi þess að iðnmenntun skiptir okkur mjög miklu máli — við höfum öll talað hér um mikilvægi iðn- og starfsmenntunar — að þessi mál fari að skýrast, bæði á milli ríkis og borgar og þá sérstaklega með það í huga að við getum svarað ágætum yfirmönnum Iðnskólans, skólameistara og öðru starfsfólki, því hvernig fyrirkomulagið verði til frambúðar þegar kemur að málefnum Iðnskólans í Reykjavík.

Ég ætla ekki að skilja orð hv. þingmanna sem komu hingað upp þannig að þeir ætlist til þess að ég hleypi upp þessu samkomulagi. Ég trúi ekki að ætlun þeirra hafi verið slík að við eigum að hleypa því upp. Ég hvet frekar þá hv. þm. sem tóku þátt í þessari umræðu — þau eru hæg, heimatökin, ef svo má segja — til að ræða við kollega sína og samherja hjá Reykjavíkurborg, að reyna að ljúka þeim málum, viðskiptum og samskiptum sem eru á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að við allir verði ánægðir. Ég ítreka að samskiptin hafa verið góð fram til þessa og ég mun leggja mig alla fram um að svo verði áfram.