131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Frumkvöðlafræðsla.

334. mál
[14:05]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort til skoðunar sé að taka upp frumkvöðlafræðslu í framhaldsskólum og grunnskólum og þá einnig í fullorðinsfræðslunni í endur- og símenntunarnámskeiðum.

Það má segja að hvatinn að þessari fyrirspurn hafi verið fróðleg og ítarleg skýrsla sem ég las frá Þróunarfélagi Austurlands sem hefur verið mikill aflvaki að menntun í frumkvöðlafræðslu hvers konar og á rætur sínar að rekja til Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu og Nýheimanna á Höfn í Hornafirði. Þaðan er þetta sprottið og hafa þeir farið um landið og kynnt bæði mikilvægi og möguleika nýsköpunarfræðslu og frumkvöðlafræðslu hvers konar. Er það mjög athyglisvert starf.

Nýsköpun er sá þáttur sem stuðlar hvað mest að samkeppnishæfi þjóða og fyrirtækja. Að mínu mati og þeirra sem ég vitnaði til áðan er mikilvægt að innleiða frumkvöðlafræðsluna í framhalds- og grunnskólakerfi með einhverjum hætti. Þróunarfélag Austurlands leggur til að á næstu árum fari fram einhvers konar þjóðarátak í frumkvöðlafræðslu eins og lagður hefur verið mjög góður grunnur að í áðurnefndum stofnunum austur á Hornafirði. Þaðan er mikið frumkvæði í málinu sprottið.

Það þarf að efla og styrkja frumkvöðlafræðsluna og sérstaklega með hliðsjón af grunn- og framhaldsskólastiginu sem leiðir að sjálfsögðu einnig til fullorðinsfræðslunnar, frumkvöðlafræðslu þar sem námið er blanda af hagnýtri þjálfun og bóklegu námi. Tilgangurinn er að byggja þannig undir frumkvöðlafræðsluna að eftir standi aukinn skilningur og færni barna og unglinga á að tileinka sér hugsunarhátt og breytni frumkvöðla í samfélaginu. Þessum markhópi hefur lítið verið sinnt á Íslandi til þessa og lítið sem ekkert í skólakerfinu fyrir utan það nokkuð merkilega og eindregna frumkvæði sem kemur frá Þróunarfélagi Austurlands þvert á það sem tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur einatt saman við og horfum til varðandi fyrirmynd um atvinnuþróun og nýsköpun hvers konar.

Frumkvöðlamenntun gefur okkur nýja vídd í menntun og atvinnuþróun almennt og hleypir miklu lífi í atvinnulífið. Á Íslandi hefur ekki verið unnið skipulega að því að undirbúa þær kynslóðir sem koma inn á vinnumarkað framtíðarinnar fyrir þær breyttu alþjóðlegu aðstæður sem við erum að sjá á vinnu- og menntamarkaði okkar.

Frumkvöðlafræðslan á vegum Þróunarfélags Austurlands hefur gert það og beinir hún sérstökum spurningum til þingheims um það hvort við munum beita okkur fyrir því að þetta nám verði tekið upp og eflt í framhalds- og grunnskólunum. Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra.