131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Frumkvöðlafræðsla.

334. mál
[14:15]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir þessa prýðilegu umræðu sem sýndi að menn kunna að meta það starf sem unnið er austur á Höfn í Hornafirði, í framhaldsskólanum þar, í Nýheimum og hjá Þróunarfélagi Austurlands. Þó að hæstv. ráðherra hafi kannski ekki tekið af skarið með að þetta nám ætti heima í aðalnámskrá sem sérstök námskrárbundin grein útilokaði hún það alls ekki. Ég ætla því að nota tækifærið eftir þessa jákvæðu umræðu um málið til að skora á hæstv. ráðherra að setjast vel og vandlega yfir það með sínu fólki með það að markmiði að innan tíðar og innan einhverra ára verði frumkvöðlafræðsla sérstakt nám, sérstök frumkvöðlamenntun verði námskrárbundin grein bæði í grunnskólum og framhaldsskólum.

Þó að námskrá okkar miði að sjálfsögðu að því að þjálfa nemendur til sjálfstæðra vinnubragða og gagnrýninnar hugsunar eins og þar stendur, þá er það gott og vel, en ég er sannfærður um að við þurfum sérstaka grein utan um þetta. Ég held að það mundi skila okkur miklum ávinningi og er viss um að ef hæstv. ráðherra fer í ítarlega skoðun á málinu verði niðurstaða þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða nám sem á heima í sérstakri grein. Ég ætla því aftur að brýna ráðherrann og skora á hana að ganga þannig í verkið að það verði að lokum innleitt sem sérstök námsgrein á báðum skólastigunum og einnig eflt verulega innan fullorðinsfræðslunnar líkt og Þróunarfélag Austurlands hefur verið að gera að mjög miklu leyti og hefur kynnt kosti frumkvöðlamenntunar fyrir sveitarstjórnum og fyrirtækjum víða um land. Þakka ég þeim fyrir það frumkvöðlastarf og að hafa beint sjónum okkar þingmanna að þessari merkilegu grein.