131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þungaskattur á orkugjöfum.

186. mál
[14:37]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir snögg viðbrögð ráðherra við þessari fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Ég hvet til þess að fyllsta jafnræðis verði gætt varðandi álagningu vörugjalda á bifreiðar sem eru knúnar öðru en jarðeldsneyti. Það kom fram í máli ráðherra að bifreiðar sem eru rafdrifnar og knúnar vetni væru undanþegnar vörugjaldi að tilteknu leyti, eins væri það um bifreiðar sem væru knúnar metangasi. Ég hef ekki kynnt mér þetta sérstaklega en ég túlka orð ráðherrans sem svo að þarna sé ekki algert jafnræði á milli.

Ég vil upplýsa það hér að Strætó bs. hyggst á þessu ári og næsta kaupa 21 strætisvagn, þar af tvo sem verða knúnir metangasi sem er framleitt innan lands, uppi í Sorpu. Það er mjög mikilvægt að myndarlega verði stutt við þá tilraun.