131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:52]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, fyrir góð svör. Mér finnst mjög eðlilegt, eins og fram kom í svari hans, að nýr fangelsismálastjóri komi að þessum málum. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt að hann hafi einhver áhrif á hvernig fangelsismálum verði háttað í framtíðinni.

Mér þótti líka mjög gott að heyra áherslu hæstv. dómsmálaráðherra á að villtir ungir afbrotamenn væru ekki með eldri föngum og eins áherslu hans á opið fangelsi, t.d. með stækkun Kvíabryggju, því vissulega þarf mismunandi úrræði fyrir mismunandi afbrot.

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því hvernig vistun kvenfanga er háttað í dag? Mér þótti ágætt að heyra frá honum að verið sé að hugsa um kvenfangana líka. Ég vil taka undir að það þarf aukin meðferðarúrræði og endurhæfingu fyrir fanga.