131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veiðiregla.

181. mál
[14:58]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Því verður ekki á móti mælt að þorskafli á Íslandsmiðum hefur dregist gríðarlega saman síðan kvótakerfið var tekið upp. Fyrirhugaður afli á þessu fiskveiðiári er rúmlega helmingi minni en stefnt var að með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þegar það var sett á legg. Allar tilraunir reiknimeistara til að búa til einhverja allsherjaraflareglu til að byggja upp þorskstofninn hafa mistekist hrapallega. Árið 1992 var þorskaflinn 309 þús. tonn, en það er einmitt árið sem vinnuhópur Hafrannsóknastofnunar og Þjóðhagsstofnunar hóf vinnu við gerð svokallaðrar aflareglu sem hafði það að markmiði að efla þorskstofninn.

Aflaregla er föst regla sem ákveður hve mikið á að veiða úr þorskstofninum. Reglan sem hefur gilt undanfarin ár er að það skuli veiða 25% af áætluðum veiðistofni, þ.e. fjögurra ára og eldri þorski. Árangursleysið er algjört, eða 100 þús. tonna minni afli en þegar reiknimeistararnir hófu vinnu sína. Hæstv. sjávarútvegsráðherra skipaði í mars 2001 nefnd til þess að meta árangurinn af notkun aflareglunnar við stjórn fiskveiða. Eflaust hefur árangursleysið rekið ráðherrann áfram til þess að gera umrædda úttekt. Það sem vekur sérstaka athygli er að hæstv. sjávarútvegráðherra skipar sömu menn í að gera úttektina og þá sem bjuggu regluna til. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að menn séu að endurskoða eigin verk.

Ein meginforsenda veiðireglunnar og reiknimeistaranna er að stór hrygningarstofn gefi af sér mikla nýliðun, en nýliðun er fjöldi ungra þorska sem bætast inn í veiðistofninn.

Ef skoðuð eru línurit yfir stærð hrygningarstofns og nýliðun er ekki með nokkru móti hægt að ætla að fylgni sé með stórum hrygningarstofni og mikilli nýliðun. Miklu nær er að lesa út úr gögnum að það sé öfugt samband á milli hrygningarstofns og nýliðunar, þ.e. þegar hrygningarstofn er lítill þá komist fleiri seiði á legg. Þetta samband er viðurkennt að vissu leyti í endurskoðunarskýrslu reiknimeistaranna, það kemur fram á bls. 9. En samt sem áður er eins og skýrslan leiti ætíð í að skýra nýliðun út frá jákvæðu sambandi hrygningarstofns og meiri nýliðunar. Gerðar eru ítrekaðar tilraunir í þá átt og búin til einhver hrognavísitala til að skýra nýliðun og reynt er að flækja málið með aldurssamsetningu hrygningarstofns og stærð hrygna. En þrátt fyrir allar þessar tilraunir virðist þetta jákvæða samband ekki finnast.

Í framhaldinu vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort ekki sé löngu kominn tími til að horfast í augu við árangursleysi aflareglunnar og fara að leita nýrra leiða til að nýta þorskstofninn og játa að þetta samband sé ekki til staðar.