131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veiðiregla.

181. mál
[15:07]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér í raun að ræða grunninn að þeirri nýtingarstefnu sem ráðuneytið hefur verið að byggja á og stjórnarflokkarnir hafa byggt á, á undanförnum árum varðandi útfærslu við veiðar á þorskstofninum, okkar mikilvægasta stofni, sem gefur okkur bróðurpartinn af tekjunum í sjávarútvegi jafnvel þó að aflinn sé ekki meiri en nú er, hvað þá ef hann væri eins og hann hefði nú verið á árum áður, áður en núverandi regla var tekin upp.

Mér finnst dálítið gæta þess í skýringum hæstv. ráðherra sem hann byggir jú á þeirri skýrslu sem hann var að vitna til, að menn eru með svona „ef-reikning“, ef-reikning aftur á bak, og segja að ef þetta eða hitt hefði gerst þá hefði niðurstaðan orðið þessi og við hefðum fengið meira út úr þessu.

Ég held að það sé afar erfitt, hæstv. forseti, að rétta af fortíðina með einhverjum ef-reikniforsendum. Það er með þær eins og fleira í þessari veröld, náttúruskilyrðin breytast og menn geta ekki sagt allt fyrir — ekki einu sinni aftur á bak.