131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veiðiregla.

181. mál
[15:09]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að koma á framfæri stuttri athugasemd til að lýsa þeirri skoðun minni að þessi hugmyndafræði og hugsunarháttur í kringum þessa aflareglu gengur einfaldlega ekki upp. Veröldin er ekki svona einföld. Það er ekki hægt að setja þorskstofninn inn í eitthvert ákveðið reiknilíkan, og segja: Það er einn einsleitur þorskstofn allt í kringum landið, ýta svo á takka og fá út einhverja útkomu. Þetta er miklu flóknara en svo.

Ég skemmti mér í vor eða sumar við að lesa skýrslu sem kom út í apríl 2004 frá nefnd um langtímanýtingu fiskstofna og mér hreinlega ofbauð að sjá þar hvernig menn eru gersamlega úti að aka í öllum sínum hugsunarhætti, tönnlast á einhverri furðulegri blöndu af tölfræði og hagfræði en gleyma gersamlega allri líffræði. Svona fiskveiðistjórn mun aldrei skila okkur neitt fram á veginn, því miður.