131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Veiðiregla.

181. mál
[15:10]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru einhvers konar talnaröð og sambland af líffræði og einkennilegri hagfræði og krónum og tonnum.

En það sem ég er að vekja athygli á og vil ræða hér eru forsendurnar fyrir þessu. Hverjar eru þær? Þetta þarf að fara að ræða. Skilar stór hrygningarstofn mikilli nýliðun? Það er ekki hægt að sýna fram á það. En það er hægt að reikna og reikna og það sem er svo sérstakt í þessu er að þegar maður horfir á þessa reikninga í þessum skýrslum, aflaregluskýrslum, þá er verið að reikna 30 ár fram í tímann. En samt sem áður er ekki hægt að segja til um stærð þorskstofnsins á næsta ári eða þar næsta ári, með nokkurri vissu. En samt sem áður treysta menn sér til að reikna áratugi fram í tímann. Þetta er hrein og klár vitleysa.

Annað atriði sem ég tel að hæstv. ráðherra ætti að svara varðar þá sem bjuggu til aflaregluna, hvers vegna eru þeir settir í að endurskoða regluna? Mér finnst það vera algjör fjarstæða, sérstaklega í ljósi árangursleysis aflareglunnar. Auðvitað eiga þeir að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir hana.

Nú er farið að reikna út dýrastofna, ekki bara í sjávarútvegsráðuneytinu, ég sá að hjá Náttúrufræðistofnun var verið að reikna út rjúpnastofninn 40 ár fram í tímann. Ég var á ráðstefnu um fiskveiðistjórn í haust og þar var verið að reikna út stærð fiskstofna aftur í tímann, þar voru fiskstofnar í Skagerak reiknaðir út 130 ár aftur í tímann, út frá einhverjum skipsbókum með mikilli nákvæmni. Ekki nóg með það, þar var verið að reikna út síldarstofn og ofveiði á sautjándu öld, út frá kirkjubókum.

Ég tel einfaldlega að við höfum lent á algjörum villigötum með þessum útreikningum og að það verði að fara að reikna þetta út frá fæðuframboði og skilyrðum í hafinu. Það er miklu nær lagi þegar verið er að áætla nýliðun á komandi árum.