131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fiskveiðistjórnarkerfi.

232. mál
[15:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Umræðan hefur farið vítt og breitt um það hvernig fiskveiðistjórnarkerfin hafa reynst í veröldinni og ég held að ég verði að koma með innlegg á þeim nótum.

Flestir vita það og örugglega hæstv. sjávarútvegsráðherra, að í Barentshafinu hefur verið veitt miklu meira magn en gert hefur verið ráð fyrir í útreikningum talna. Skýrsla hefur verið unnin sem bendir á 100–200 þús. tonna afla umfram það sem leyft hefur verið. Þó hefur sameiginleg ákvörðun Normanna og Rússa verið langt umfram ráðgjöf ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Síðan gerist það á þessu ári að Norðmenn og Rússar ákveða að auka heldur við veiðina, þó ekki mikið vegna þess hversu mikil umframveiðin hefur verið. Ég held að sveiflurnar í Barentshafinu geti líka vissulega verið hér þó að þær hafi ekki verið það á undanförnum árum. Við erum núna með hlýjan sjó við Ísland sem mun örugglega færa þorskstofninn okkar yfir til Grænlands (Forseti hringir.) og það munu að sjálfsögðu koma göngur þaðan á komandi árum.