131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær hafði ég óskað eftir því að fá viðbrögð hæstv. umhverfisráðherra á Alþingi um álitamál sem vaknað hafa almennt varðandi forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir vegna stórbrunans sem varð við Klettagarða. Ráðherra gat ekki orðið við beiðni minni vegna anna. Sem betur fer, og það ber að þakka, gekk öll samvinna aðila vel vegna þessa stórbruna. Viðbrögð og björgunaraðgerðir á brunastað virðast hafa virkað fullkomlega. Þeir sem að þessum björgunaraðgerðum komu eiga vissulega heiður skilinn.

Nauðsynlegt er þó að fara yfir málið í heild sinni og læra hér af reynslunni, m.a. hvort treysta þurfi betur stoðir forvarna, bæði gagnvart eftirlitsskyldum aðilum og aðgerðum sem beinast að þeim sem uppfylla ekki skyldur um fullnægjandi brunavarnir. Sérstaka athygli mína varðandi þennan bruna vöktu líka óskýrar heimildir slökkiviliðsins til að beita þvingunarúrræðum og að Umhverfisstofa vissi ekki að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefði gert alvarlegar athugasemdir varðandi úrgang á landi Hringrásar vegna almannahættu.

Það er nauðsynlegt í framhaldi af þessum stórbruna að skipulega sé farið yfir það, ekki síst á opnum svæðum, hvort víða sé að finna sambærileg hættusvæði eða eldsmat sem ógnað geti almannahagsmunum og öryggi fólks. Ég bendi þar ekki síst á olíubirgðastöðvar í Örfirisey í nálægð við íbúabyggð. Ég spyr um viðbrögð ráðherra við því. Það er auðvitað grafalvarlegt mál sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag að brunavörnum sé hreinlega ábótavant hjá á þriðja hundrað fyrirtækjum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ástæða til að spyrja ráðherra hvaða áform séu uppi varðandi auknar forvarnir og eldvarnaeftirlit. Ég vildi einnig spyrja ráðherra hvort ástæða sé til sérstakra viðbragða vegna þeirra 200–300 tonna af PCB-menguðum jarðvegi sem geymdur er í sekkjum á lóð Hringrásar og ekki hefur enn fundist staður til að farga. Sömuleiðis spyr ég ráðherrann hvort verkaskipting og skilgreining á ábyrgð sé nægilega skýr milli slökkviliðs, lögreglu og almannavarna þegar stórbruna eða almannavá ber að höndum og hvort skýrar björgunaráætlanir liggi fyrir undir slíkum kringumstæðum.