131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða þetta atvik hér á þingi og þakka ég hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á því. Við þurfum að fara yfir alla þætti og fagna ég því að hæstv. umhverfisráðherra hefur þegar brugðist við. Það ber líka að þakka öllu því fólki sem lagði hönd á plóginn við björgunarstörf þegar þessi mikli bruni varð. Samkvæmt fréttum í morgun byrjaði að loga aftur í nótt.

Við vorum heppin að vindátt var eins og hún var þegar þessi mikli bruni varð. Það hefði verið mjög erfitt ef eldurinn og reykurinn hefðu farið yfir öldrunarstofnanirnar sem eru rétt við þetta svæði en bent hefur verið á að víða eru hættur á höfuðborgarsvæðinu. Hjá á þriðja hundrað fyrirtækjum er brunavörnum ábótavant en mig langar að vekja athygli á öðru sem kom fram í fyrirspurn sl. vetur hér á Alþingi.

Ég spurði þá hæstv. dómsmálaráðherra hvort til væri rýmingar- eða björgunaráætlun fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélögin ef náttúruhamfarir eða stórslys yrðu sem ógnuðu lífi borgaranna. Í svari frá hæstv. dómsmálaráðherra kom fram að engin slík áætlun er til fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið þar sem þó meiri hluti íbúa landsins býr. Slíkt er hins vegar til fyrir Hveragerði og ýmis önnur svæði á landinu þar sem menn hyggja að einhver vá geti verið fyrir dyrum.

Ég tel fulla ástæðu til að skoðað verði í þessu samhengi hvort farið er að vinna að einhverri rýmingar- eða björgunaráætlun fyrir þetta stóra svæði, höfuðborgarsvæðið, ef hér verða stórslys, náttúruhamfarir eða eitthvað slíkt og flytja þarf íbúa í burtu. Þarna þurfti ekki að flytja nema tiltölulega fáa íbúa í burtu en það gæti orðið verra. Horfum t.d. til Örfiriseyjar og olíubirgðastöðvarinnar þar, ef eitthvað gerðist þar þyrfti líklega að flytja stærri hóp á brott.