131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:43]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mest er um vert að ekki urðu slys á mönnum, hvorki við eldsvoðann sjálfan, mengunina né heldur við björgunarstörfin. Það ber að þakka og eins það sem aðrir hafa bent á, að þó að ljóst sé að í aðdraganda þessa mikla slyss hafi verið um að ræða sambandsleysi á milli eftirlitsaðila sem annars vegar eiga að sjá um brunavarnir og hins vegar um útgáfu starfsleyfis var samvinna allra aðila á vettvangi þegar á hólminn var komið mjög góð og ekki síst þeirra 600 íbúa sem þarna urðu fyrir röskun, bæði á næturró og högum almennt.

Eins og hér hefur verið bent á er meira í pípunum, ekki síst flugvöllurinn og olíubirgðastöðin í Örfirisey eins og hefur verið nefnt. Ég vil nefna þriðja atriðið sem er flutningur hættulegra efna um þetta þéttbýlissvæði, til og frá höfninni í gegnum borgarlandið. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir snör viðbrögð og eins ber að þakka borgarstjóra fyrir aðkomu hans að þessu máli. Ég fer fram á að líka verði tekið á því sem hér hefur verið nefnt til viðbótar brunavörnum.

Ég vil ekki fara úr þessum ræðustól án þess að nefna það að fyrirtæki eins og Hringrás eru þjóðþrifafyrirtæki sem sjá um að safna spilliefnum frá okkur hinum og koma þeim til réttrar förgunar, og eins efnum til endurvinnslu. Við þurfum auðvitað að búa þannig að slíkum fyrirtækjum að þau verndi umhverfið og skipuleggi starfsemi sína þannig að hætta stafi ekki af. Þetta er auðvitað vaxandi starfsemi hjá okkur sem verður að styðja við.