131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:51]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa nefnt mjög mörg atriði í máli sínu við þessa umræðu og það er ekki hægt að bregðast við því öllu á svo skömmum tíma sem hér gefst. Sérstaklega voru nefnd viðbrögð við PCB-efnum sem eru auðvitað mjög mengandi. Ég tel að þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar núna séu viðunandi. Það getur vel verið að það þurfi að finna einhverja varanlegri lausn til framtíðar en eins og málin standa í dag hvað það snertir er það viðunandi.

Þegar Brunamálastofnun fer í úttekt sína verður væntanlega skoðað hvernig eftirlitið hefur virkað. Þá kemur að sjálfsögðu inn í það verkaskipting milli aðila.

Ég vil nefna líka að hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur farið fram mikið starf á undanförnum árum sem hefur miðað að því að styrkja Eldvarnaeftirlitið og skýra verklagsreglur sem hafa þá með notkun þvingunarúrræða að gera. Það er nokkuð mikið um að dagsektum hafi verið beitt, og þúsundir bréfa eru sendar árlega til fyrirtækja þar sem gerðar eru athugasemdir við eldvarnir. Ákvæði laga um beitingu dagsekta eru því virkt stjórnsýslutæki sem nýtist sveitarfélögunum vel. Almennt séð eru þvingunarúrræði slökkviliðsstjóra virk en slík úrræði eru nokkuð þung í vöfum. Slökkviliðsstjóri verður að fara að stjórnsýslulögum í hvívetna og verður að hafa ríkar ástæður fyrir því að beita þvingunum. Yfirleitt er þá miðað við að líf sé í hættu. Ef einungis er um mögulegt eignatjón að ræða eru tímafrestir atvinnurekenda mun rýmri og ekki kemur til lokunar mannvirkja. Ég vil líka nefna að brunavarnir hafa verið styrktar verulega í kjölfar nýrra laga um brunamál.