131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór býsna vítt og breitt í ræðu sinni eins og vera ber við þessar aðstæður. Ég vil gera sérstakar athugasemdir við eitt atriði.

Við hv. þingmaður erum sammála um að bæta þarf áætlanagerð í ríkisrekstri. Hann notaði skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2003 til að rökstyðja mál sitt og las upp skoðun ríkisreikningsnefndar á því hvernig eigi að færa óreglulega liði.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort það skipti okkur ekki hvað mestu máli við samanburð á fjárlögum og ríkisreikningi að skoða afkomu hverrar stofnunar og ráðuneytis fyrir sig, (Forseti hringir.) þ.e. að við reynum að skoða niðurstöður þar.