131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:01]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hljótum að vera sammála um að bættur ríkisrekstur er áhugamál okkar. Þess vegna eigum við að horfa á slíkan samanburð með þeim hætti. Þegar háttvirtur þingmaður fjallar t.d. um lífeyrisskuldbindingar og hvernig þær eru færðar í ríkisreikningi þá er einfaldlega um að ræða hluti sem ekki eru fyrirsjáanlegir. Þegar við kláruðum fjárlagafrumvarpið fyrir ári síðan var t.d. ekki fyrirsjáanlegt að gerðir yrðu kjarasamningar við kennara (EMS: Nú?) sem mundu færa mjög háar fjárhæðir inn í ríkisreikning þessa árs. Það var hreinlega ekki hægt að sjá fyrir.

Svo ég vitni í skýrslu Ríkisendurskoðunar þá kemur þar fram að nýjar skuldbindingar fyrir árið 2003 hafi verið 15 milljarðar kr. en 31 milljarður kr. fyrir árið 2002. Hver var skýringin? Lækkunina má skýra með góðri raunávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga árið 2003. Var það fyrirsjáanlegt þegar fjárlög þessa árs voru afgreidd?