131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:02]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Enn er reynt að klóra í bakkann varðandi þessa útskýringu á óreglulegum liðum. Það er auðvitað ljóst að marga liði í fjárlögum og fjárlagafrumvarpi er ekki hægt að sjá fyrir alveg upp á eyri. Hins vegar er það klárt, miðað við þá staðla sem miðað er við, að t.d. lífeyrisskuldbindingar eru fyrirséðar. Það er áætlað fyrir þeim í fjárlögunum. Vitanlega á að reyna að láta hvern einasta lið í fjárlögunum standast sem allra best.

Það er hins vegar rétt hjá háttvirtum þingmanni að kjarasamningar grunnskólakennara eru að hluta til örlítið öðruvísi en ýmsir aðrir kjarasamningar vegna þess að fjármálaráðherra kemur ekki sjálfur að þeim. Hins vegar gerði ríkið þann samning við sveitarfélögin að lífeyrisskuldbindingar sem kæmu í kjölfar samninga við grunnskólakennara féllu á ríkið. Þess vegna er eðlilegt að menn áætli eitthvað upp í það.

Aftur á móti verður athyglisvert að fylgjast með því máli. Væntanlega verður innan fárra daga ljóst hvort kjarasamningurinn við grunnskólakennara verður staðfestur eða ekki. Þá kemur í ljós hvort reiknað verður út hvað sú lífeyrisskuldbinding kostar og hvort það kemur inn í 3. umr. um fjáraukalög og fjárlög.