131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:09]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Annað sem vakti athygli mína í hinni yfirgripsmiklu ræðu háttvirts þingmanns var þegar hann fjallaði um meðalverð matvæla í Evrópu. Þá langar mig til að spyrja hann: Er sama verð á matvöru á Grikklandi, í Danmörku, í Þýskalandi eða á Ítalíu? Hvað átti hann við í máli sínu, þ.e. innfluttar matvörur eða innlendar matvörur sem eru framleiddar hér á landi? Ég vil vekja athygli háttvirts þingmanns á því að íslenskar mjólkurvörur hafa t.d. ekki hækkað, ekki um eina krónu, ekki um eitt prósent síðastliðin þrjú ár.