131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:10]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu minni fór ég út af fyrir sig ekki yfir verðlagningu á matvörum í miklum smáatriðum heldur vakti ég athygli á því að frétt sem birtist í morgun af könnun sem gerð hefur verið á matvælaverði félli afskaplega vel að tillögum okkar um að lækka matarskattinn. Í könnuninni var borið saman matarvælaverð í Evrópu. Það kemur ekkert fram í fréttinni um verðið í hverju einstöku ríki þannig að ég get ekki svarað til um verðið í þeim ágætu löndum sem háttvirtur þingmaður nefndi.

Í könnuninni kemur hins vegar fram m.a. að í þessum tölum vegur virðisaukaskattur á matvæli þungt. Hann er lægstur í Finnlandi og Svíþjóð. Hér á landi er virðisaukaskattur á matvæli ýmist 24,5% eða 14%. Ég var einmitt að vekja athygli á því að við gætum nálgast aðrar Evrópuþjóðir í matarverði með því að fara þá leið sem ég veit að háttvirtur þingmaður er sammála mér um að fara, eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að lækka matarskattinn. En hinn afar smái Framsóknarflokkur er þar hið þunga hlass sem þarf að velta.