131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:12]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég hafi skilið háttvirtan þingmann rétt, að hann sé í raun algerlega sammála þeim athugasemdum sem við höfum gert frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram, þ.e. að eðlilegt sé að bera saman ríkisreikninginn og fjárlög og fjárlagafrumvarpið en ekki, eins og hæstv. fjármálaráðherra og ýmsir fylgifiskar hans hafa sagt, að það væri ekki hægt.

Ég tek undir það sem Ríkisendurskoðun segir, að þetta sé sambærilegt og það eigi að bera þetta saman. Það er alger misskilningur hjá háttvirtum þingmanni að ég hafi sagt að það væri ekkert að marka ríkisreikninginn. Það er nákvæmlega það sem ég hef alltaf sagt, að það væri eðlilegt að miða við ríkisreikninginn vegna þess að það sé marktækur pappír en því miður hafi það hins vegar verið svo að fjárlagafrumvarpið og fjárlögin hafi ekki reynst eins marktæk og ýmsir vilja. Ég veit að háttvirtur þingmaður er mér algerlega sammála um að fjárlögin eigi auðvitað að vera þannig lög að eftir þeim sé hægt að fara og það geri allir.