131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:15]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar sem ég skipa sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2005 og breytingartillögum hennar og meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram hver stefna ríkisstjórnarinnar er. Það frumvarp til fjárlaga sem hér liggur fyrir er í samræmi við fyrri frumvörp þessarar ríkisstjórnar þó þannig að nú er enn meiri áhersla lögð á að færa þeim mest sem hafa mest fyrir.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram hvernig tekna skuli aflað og hvernig þeim verði síðan ráðstafað á einstaka málaflokka. Nánari skoðun á því sýnir vel áherslur ríkisstjórnarinnar þar sem markvisst er þrengt að velferðarsamfélaginu. Áherslur ríkisstjórnarinnar hafa leitt til aukinnar misskiptingar í íslensku samfélagi. Bilið á milli ríkra og fátækra er sífellt að aukast og mun aukast enn frekar með tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar í skattkerfinu. Þannig eiga þeir sem hafa mest að fá mest og þeir sem hafa minnst að fá minnst. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stefnir þjóðinni í auðhyggjusamfélag þar sem skammtímagróði og peningalegur mælikvarði er lagður á allt og alla. Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki samþykkt slíkar áherslur.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Íslenskt samfélag á að einkennast af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að allir fái notið sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríkir. Skattstefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðum sé dreift með sanngjörnum hætti. Velferð á að vera allra en ekki hinna fáu. Jafnt tillit verður að taka til félagslegra, efnahagslegra, lífrænna og menningarlegra þátta, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Í slíku samfélagi blómgast bæði sveit og borg á eigin forsendum.

Frú forseti. Efnahagsforsendur fjárlaga ársins 2004 hafa gjörbreyst frá því að lagt var upp með fjárlögin fyrir tæpu ári síðan. Þannig er nú spáð að aukning í einkaneyslu verði um 7% en ekki 3,5% eins og spáð var. Fleiri dæmi mætti nefna, svo sem fjárfestingu en hún jókst nærri tvöfalt meira en gert hafði verið ráð fyrir. Forsendur fjárlaga ársins 2004 hafa því á margan hátt ekki gengið eftir. Í framhaldi af því hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki þurfi að bæta vinnubrögðin við fjárlagagerðina þegar forsendur fjárlaga eru áætlaðar.

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er talið að viðskiptahallinn á þessu ári verði 7–8% af landsframleiðslu og, eins og þar segir, með leyfi forseta: „vaxi síðan hratt og nái hámarki 2006 og verði þá 13–14 % af landsframleiðslu“. — Ef að líkum lætur ætti landsframleiðslan að vera komin yfir 1.000 milljarða kr. þá og við erum þá að tala um 130, 140 eða 150 milljarða halla á því ári. — „Aukinn viðskiptahalla má að verulegu leyti rekja til beinna og óbeinna áhrifa vegna stóriðjuframkvæmdanna.“ — Enda er ítrekað bent á það í greinargerðum með fjárlagafrumvarpinu og efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar að beita verði sérstöku aðhaldi vegna stóriðjuframkvæmdanna bæði fyrir austan og hér fyrir sunnan. — „Áætluð bein áhrif vegna þeirra skýra um 40% af viðskiptahallanum þegar framkvæmdir standa sem hæst árin 2005–2006.“ Athygli er vakin á að yfir 60% viðskiptahallans stafa ekki af þessari stóriðju heldur vegna aukinnar einkaneyslu og þenslu í samfélaginu. Við þessar aðstæður velur ríkisstjórnin að lækka skatta, sérstakan hátekjuskatt á hátekjufólki og tekjuskatt einstaklinga, um 5 milljarða kr. á næsta ári. Þessum niðurskurði á tekjum ríkisins er mætt með niðurskurði á samgönguáætlun um 1,7 milljarða kr. á þessu ári og um 4 milljarða kr. á næsta og þarnæsta ári samtals, þ.e. um tæpa 2 milljarða á árinu 2005 og 2 milljarða á árinu 2006. Þá eru framlög til velferðarkerfisins skert, auknir skattar lagðir á sjúklinga eða þá sem þurfa að leita til heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva og skólagjöld í háskólum aukin.

Frú forseti. Efnahags- og viðskiptanefnd ber lögum samkvæmt að fara yfir tekjuforsendur frumvarpsins. Það hefur hún enn ekki gert með viðhlítandi hætti og verður því sá hluti frumvarpsins tekinn sérstaklega til umfjöllunar við 3. umr.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði á næsta ári rúmir 294,6 milljarðar kr. Enn fremur er í breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar lagt til að útgjöld verði aukin um 1,7 milljarða kr. Samtals er því gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs verði um 296,3 milljarðar kr. á næsta ári. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því í endurskoðaðri tekjuáætlun að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 306,4 milljarðar kr.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er eins og oft áður kveðið á um hækkun þjónustugjalda. Þessar hækkanir koma eins og alltaf harðast niður á þeim er síst skyldi. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir að skráningargjöld stúdenta í ríkisháskólunum verði hækkuð úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Ráðgert er að hækka komugjöld til heilbrigðis- og heilsugæslustöðva um 50 millj. kr. Þá má ekki gleyma skattalækkunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem nú er til meðferðar á Alþingi, þar sem megininntakið er að þeir beri mest úr býtum sem þegar hafa mest fyrir.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ kemur fram að fjárhagsstaða margra framhaldsskóla var slæm í árslok 2003. Í skýrslunni eru nefndir 11 skólar þar sem neikvætt eigið fé er samtals 662 millj. kr. Margir framhaldsskólar eru í slíkri stöðu ár eftir ár. Á þetta hefur ítrekað verið bent við fjárlagaumræður og Ríkisendurskoðun hefur gert alvarlegar athugasemdir við það að stofnanir eins og framhaldsskólar beri halla á milli ára. Það er ljóst að taka verður á þessum vanda. Reiknilíkanið sem skammtar fé til framhaldsskólanna er enn meingallað og mikilvægt að ljúka endurskoðun á því sem allra fyrst. Í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 er jafnframt bent á að undanfarin ár hafi stjórnvöld neitað að samþykkja áætlanir framhaldsskólanna um fjölda ársnemenda. Vegna þessa hefur nemendafjöldinn verið vanáætlaður í fjárlögum. Skólarnir hafa ekki fengið bættan útgjaldaauka vegna fjölgunar nemenda fyrr en nokkuð eftir á. Þetta hefur m.a. leitt til vandræðaástands eins og skapaðist í þjóðfélaginu síðastliðið sumar þegar mörg ungmenni gátu ekki fengið skólavist vegna fjársveltis framhaldsskólanna. Stjórnvöld samþykktu um síðir að setja meiri fjármuni til framhaldsskólanna svo að þeir gætu tekið á móti fleiri nemendum. Vegna fjárhagsstöðu margra framhaldsskóla leggur Vinstri hreyfingin – grænt framboð því áherslu á að reiknilíkanið sem greitt er eftir verði endurskoðað og raunveruleg fjárþörf skólanna verði metin. Í reiknilíkaninu er vanáætlað til margra þátta, m.a. til fjármálastjórnar, tölvukaupa og reksturs tölvukerfa, svo að nokkuð sé nefnt. Þá eiga verknámsskólar og heimavistir erfitt með að fá sinn sérkostnað metinn. Fáránlegt er að setja þak á nemendafjölda minni framhaldsskóla þar sem aukinn fjöldi nemenda styrkir þessa skóla og eykur möguleika á fjölbreyttara námsframboði. Ég hugsa hér t.d. um Fjölbrautaskólann á Akranesi, Menntaskólann á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Húsavík, Laugum. Það er alveg fáránlegt að setja þak á nemendafjölda þessara skóla eins og gert hefur verið með því að takmarka fjárveitingar til þeirra og taka ekki strax inn aukinn nemendafjölda þannig að þeir geti mætt þeim kröfum sem gerðar eru. Þá er ótæk sú stjórnsýsla að láta framhaldsskólana bera stöðugt uppsafnaðan halla milli ára. Hefur Ríkisendurskoðun, eins og ég hef áður bent á, ítrekað lagt áherslu á að slíkt sé ekki heimilt samkvæmt fjárreiðulögum. Þá hafa forsvarsmenn framhaldsskólanna og ríkisháskólanna harðlega gagnrýnt að sjálft reiknilíkanið skuli ekki vera skólunum aðgengilegt þó að þeim sé gert að haga rekstri sínum eftir þeim duttlungum þess.

Í fylgiskjali með nefndaráliti þessu er einmitt minnisblað frá Félagi íslenskra framhaldsskóla og Skólameistarafélagi Íslands þar sem rakin eru nokkur atriði sem forsvarsmenn þessara skóla vilja benda að hafi verið vanáætluð og vangert af hálfu ríkisins gagnvart þeim skólum. Rétt er að ítreka hér svo öllum sé það ljóst að ríkið ber ábyrgð á framhaldsskólunum, rekstri þeirra og skyldum. Samkvæmt lögum er skylt að taka inn þá nemendur sem sækja um skólavist í framhaldsskólum landsins. Það er því vert að íhuga þau vinnubrögð sem eiga sér stað, en ég leyfi mér að vitna hér í minnisblað Félags íslenskra framhaldsskóla og Skólameistarafélags Íslands þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Undanfarin ár hefur fjárveitingavaldið ekki samþykkt réttar áætlanir menntamálaráðuneytisins og skólameistara um fjölda ársnemenda í skólum.“

Hvers vegna er það svo? Félag framhaldsskóla og menntamálaráðuneytið skila ákveðnum tölum um nemendafjölda til fjármálaráðuneytisins sem leyfir sér síðan á eigin forsendum að skera þann fjölda niður eftir því sem þeim þykir passa við þær fjárlagatölur sem þeir hafa ákveðið að leggja í málið. Hvers konar vinnubrögð eru þetta innan stjórnsýslunnar? Mér finnast svona vinnubrögð alveg dæmafá. Alþingi ber að átelja harðlega vinnubrögð fjármálaráðuneytisins af þessum toga, að leyfa sér með einhliða hætti að skera niður tölur um nemendafjölda sem menntamálaráðuneytið skilar til fjármálaráðuneytisins.

Síðan segir í þessu minnisblaði frá Félagi íslenskra framhaldsskóla:

„Ársnemendur 2004 verða líklega eitt þúsund fleiri en fjárlög gera ráð fyrir“ — eitt þúsund fleiri — „og í tillögum til fjáraukalaga sjást 250 millj. vegna fleiri ársnemenda. Þessa fjárhæð þyrfti að tvöfalda til að mæta aukningunni. Nú er rétt að það komi fram að nokkur viðbót hefur komið í þetta en þó vatnar enn þá um 200 millj. kr. til þess að framhaldsskólarnir geti rekið sig nokkurn veginn á sléttu á þessu ári. Þegar svo margir nemendur fást ekki bættir fyrr en eftir á lenda margir skólar í miklum vanda vegna þess að þeir fá ekki rekstrarfé.“

Frú forseti. Ég get ekki annað en ítrekað hér hversu óvönduð og ósanngjörn vinnubrögð það eru að leyfa sér með einhliða hætti að skera niður fjárveitingar til framhaldsskólanna á grundvelli þess að menn við skrifborð í fjármálaráðuneytinu fækka nemendum einhliða.

Varðandi opinberu háskólana er nauðsynlegt að laga launastiku reiknilíkans menntamálaráðuneytisins sem notast er við þegar greitt er til háskóla. Í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur m.a. fram að ein af niðurstöðum skýrslu um „forsendur útreikninga nemendaframlaga í reiknilíkani um kennslu við háskóla“ sem starfshópur á vegum menntamálaráðuneytisins skilaði af sér í mars á þessu ári hafi verið að 10,5% vanti upp á að launastikan endurspegli meðallaunahækkanir í háskólum. Þannig hefur verið áætlað að á árunum 2001–2003 hefði fjárveiting til kennslu í ríkisháskólunum átt að vera um milljarði kr. hærri en raun var á.

Frú forseti. Aftur komum við að því að ríkisvaldið, ráðuneytið, fjármálavaldið skammtar sér sínar eigin forsendur sem eru í engum takti við raunveruleikann. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að þetta verði leiðrétt og leggur jafnframt áherslu á að fjárveitingar til Háskóla Íslands verði auknar svo koma megi til móts við þann fjárhagsvanda sem einkum fámennar greinar standa frammi fyrir. Háskóli Íslands, sem er langstærsta kennslu- og rannsóknastofnun landsins, hefur búið við fjársvelti undanfarin ár. Stjórnvöld hafa ekki brugðist nægilega markvisst við aukinni eftirspurn eftir námi í skólanum. Þannig kemur fram í áliti 2. minni hluta menntamálanefndar um fjárlagafrumvarpið að á þessu ári er áætlað að virkir nemendur verði um 5.800 en í fjárlögum ársins er aðeins gert ráð fyrir 5.200 nemendum. Skólinn er því í raun að mennta um 600 nemendur sem hann fær ekki greitt fyrir. Slíkt mun á endanum bitna á gæðum kennslunnar.

Þá má nefna að hlutfall fjárveitinga til rannsókna í Háskóla Íslands var 67% af kennsluframlagi á árinu 1999 en verður komið niður í 46% árið 2005 verði rannsóknarframlag til skólans ekki aukið. Háskóli Íslands er stærsta menntastofnun landsins og hefur fært þjóðinni mikla hagsæld með menntuðum einstaklingum og framúrskarandi rannsóknum. Sú kraftmikla stofnun sem háskólinn er og hefur verið er ein af forsendum þess að við höfum getað byggt upp sjálfstæða þjóð þar sem lífskjör eru með því besta sem gerist. Ekki má þrengja svo að Háskóla Íslands að það dragi úr gæðum kennslu eða aðgangi nemenda að skólanum. Lausnin er ekki að koma á skólagjöldum þar sem aðstaða þeirra efnameiri verður betri til að fá menntun. Því mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð aðgangstakmörkunum og skólagjöldum í opinberum háskólum. Brýnt er að búa svo um að opinberir háskólar beri ekki skarðan hlut frá borði í þeirri samkeppni sem efnt hefur verið til á milli einstakra háskóla. Sem stendur geta sjálfseignarstofnanirnar aukið tekjur sínar með því að innheimta skólagjöld af nemendum án þess að það komi niður á hinu opinbera framlagi. Réttmætt er að halda því fram að verið sé að pína opinbera háskóla til að fara út á sömu braut, þ.e. að innheimta skólagjöld. Slíkt samrýmist engan veginn sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um jafnrétti til náms. Mikilvægt er að stjórnvöld móti opinbera heildarstefnu um háskólastigið eins og Ríkisendurskoðun leggur til í skýrslu sinni „Háskólamenntun, námsframboð og nemendafjöldi“, stefnu þar sem verkefnum er forgangsraðað og þau tímasett og mælanleg markmið skilgreind.

Frú forseti. Minni hlutinn, þingmenn í stjórnarandstöðunni og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram breytingartillögur sem taka í nokkru á fjárhagsvanda hinna opinberu háskóla.

Ef við víkjum að utanríkismálum er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir því að útgjöld til utanríkismála verði um 6,7 milljarðar kr. Mikil útgjaldaaukning hefur orðið í þessum málaflokki á undanförnum árum. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. október sl. kom m.a. fram að á ellefu ára tímabili, þ.e. frá árinu 1995, hafi útgjöld til málaflokksins hækkað um 245% en á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 36%. Þá kemur einnig fram í áðurnefndri grein að á þessu sama tímabili hafi kostnaður vegna sendiráða Íslands hækkað um 260%. Að auki hafi um 2,7 milljörðum kr. verið varið til kaupa á húsnæði fyrir sendiráð og sendiskrifstofur, viðhalds, innréttinga og breytinga. Þá kemur fram í skýrslu sem utanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi í apríl sl. að á átta ára tímabili, 1995–2002, hafi verið stofnuð átta sendiráð og sendiskrifstofur.

Með því nýmæli í fjárlögum að setja öll sendiráð undir eitt fjárlaganúmer dregur mjög úr gagnsæi þeirra fjármuna sem varið er til sendiráða og hvernig þeir eru nýttir. Áður fyrr var hvert sendiráð sérstakur fjárlagaliður og þá sást hvað var ætlað til starfseminnar á hverjum stað. Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til þessa málaflokks aukist mjög og því er nauðsynlegt að ljóst sé hvar útgjöld hafa aukist eða hvar og hvernig þörfin hefur verið metin. Eins og þetta er sett upp núna er engin leið að átta sig á þeim áherslubreytingum sem íslensk utanríkisþjónusta er að taka hvað varðar starfsemi einstakra sendiráða.

Ríkisendurskoðun hefur í skýrslu sinni „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ gagnrýnt þetta fyrirkomulag og telur að með þessu dragi úr gagnsæi upplýsinga og að líklegt sé að ábyrgð forstöðumanna minnki. Ég vil ítreka, frú forseti, að ég tel að fjárlaganefnd og Alþingi eigi að taka málið til endurskoðunar og kanna hvort ekki sé rétt að færa þessi mál aftur í gagnsærra form við fjárlagagerðina þannig að hægt sé að fylgjast með og sjá hvernig áherslur breytast í utanríkisþjónustunni og rekstur einstakra sendiráða gengur.

Áfram er bætt í svokallaða íslenska friðargæslu á erlendri grund. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hervæða íslenska ríkisborgara og stilla þeim upp við hlið hersveita NATO og Bandaríkjanna. Jafnframt er mótmælt þátttöku Íslands í hópi hinna vígfúsu ríkja við innrásina í Írak og að íslenska ríkið leggi fram fé til hergagnaflutninga.

Frú forseti. Við höfum ítrekað látið það koma fram á þingi að við teljum að Ísland eigi að auka framlag sitt til friðar- og þróunarstarfa á þeim forsendum sem við Íslendingar erum reiðubúnir að vinna sterkir á, ekki til að taka þátt í hernaði eða herflutningum en á sviðum mannúðarmála, atvinnumála og skipulagsmála getum við vel lagt okkar af mörkum. Þangað á áherslan að beinast en ekki að setja íslenska borgara í herbúninga undir stjórn hervelda á erlendri grund. Það er andstætt íslenskri þjóðarvitund, á móti íslenskum lögum og með þeim aðgerðum setjum við Íslendinga út um allan heim í skotlínu, nokkuð sem er engin ástæða til og ég held að þjóðin sé andvíg. Þess vegna mótmælum við þeim tillögum sem uppi eru í fjárlagafrumvarpinu og sýna stefnu ríkisstjórnarinnar að styrkja enn frekar svokallaðar friðargæslusveitir sem eru í raun vopnaðir ríkisborgarar við hlið erlendra herja.

Ef litið er á heilbrigðismálin er fjárhagsvandi Landspítala – háskólasjúkrahúss mikill. Við höfum fylgst með umræðu allt þetta ár um hvernig beitt hefur verið hörðum niðurskurði á starfsemina þar. Handahófskenndur niðurskurður hefur gengið mjög nærri starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss á árinu. Enn er honum gert að spara um 600 millj. kr. í rekstri á næsta ári. Ljóst er að með auknum niðurskurði er höggvið í grunnstoðir heilbrigðisþjónustu landsmanna. Ég leyfi mér að vísa til álits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um fjárhagsstöðu spítalans og til tillöguflutnings þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem miða að því að styrkja fjárhagsstöðu spítalans og reyndar annarrar heilsugæslu í landinu og verður mælt fyrir síðar í dag.

Varðandi heilbrigðis- og heilsugæslustofnanir kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ að fjárhagsstaða margra heilbrigðisstofnana var slæm í árslok 2003. Í því sambandi eru sérstaklega nefndar fimm heilbrigðisstofnanir þar sem samanlagður höfuðstóll er neikvæður um 297 millj. kr. Það er jafnframt ótækt að svo mikilvægar stofnanir séu stöðugt látnar bera halla milli ára. Það stríðir gegn lögum og er dæmi um slæma fjársýslu af hálfu stjórnvalda í Stjórnarráðinu.

Annar minni hluti mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði hjá heilbrigðisstofnunum á Blönduósi, Hvammstanga, Patreksfirði og Bolungarvík, þar sem gert er ráð fyrir að fella niður bráðaþjónustu. Þó er gert ráð fyrir lítils háttar aukningu við 2. umr. til þessa liðar en þó engan veginn til að mæta þeirri þörf sem þar er og ég mótmæli þeirri stefnu að að skera af þá þjónustu sem þarna hefur verið. Margar aðrar heilbrigðisstofnanir, t.d. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Austurlands, búa við verulegan fjárskort sem ekki er tekið að fullu á og svo má áfram telja.

Einnig er rétt að vekja athygli á því að þúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins eru án skráðs heimilislæknis. Það ástand hlýtur að vekja verulegan ugg í stöðu heimilislækninga á því svæði.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri einkavæðingu sem á sér stað í heilsugæslunni. Reynslan af því að gera samning við einkaaðila um að taka að sér heilsugæsluna virðist ekki vera góð. Þannig kemur eftirfarandi fram í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslustöðina í Lágmúla. Í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar stendur, með leyfi forseta:

„Heilsugæslustöðin Lágmúla starfar samkvæmt verktakasamningi milli Heilsugæslunnar í Reykjavík og Heimilislæknastöðvarinnar ehf. Samningurinn rann út í árslok 2000 en aðilar líta svo á hann sé enn þá í gildi þar sem þeir hafa ekki sagt honum upp. Við endurskoðun Ríkisendurskoðunar voru gerðar athugasemdir við að eignaskrá liggur ekki fyrir og lánveitingar til lækna sem jafnframt eru hluthafar Heimilislæknastöðvarinnar ehf. Í þjónustusamningi er engin heimild fyrir slíkum lánveitingum. Þá er þar kveðið á um hvernig fara eigi með rekstrarafgang og skal helmingur skattalegs hagnaðar renna til verksala en hinn helminginn skal leggja í varasjóð sem verksali ávaxtar. Á síðustu fimm árum nam tekjuafgangur 52 millj. kr. sem verksala hafa verið greiddar. Sá hluti rekstrarafgangs sem leggja átti í varasjóð var ekki lagður þangað. Þá hafði landlæknisembættið ekki sinnt sérstaklega eftirliti með störfum verksala og gæðum þjónustunnar eins og kveðið er á um í samningi.“

Auk þess mun það vera svo að einstakir læknar reka einkahlutafélag í kringum sjálfan sig á viðkomandi stöð. Þetta er ekki glæsileg einkunn sem Ríkisendurskoðun gefur einkavæðingarbrölti ríkisstjórnarinnar. Hvernig má það t.d. vera að hagnaður sé af rekstri heilsugæslustöðvar þegar fjöldi fólks í því hverfi sem hún á að sinna fær ekki fastan heimilislækni og, það sem verra er, fær ekki að panta tíma hjá læknum heldur má einungis koma á ákveðnum tímum og bíða stundum langtímum saman eftir að fá að hitta lækni. Og hvernig má það vera að þessi sama stöð er samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar að stunda lánarekstur til eigenda sinna? Og hvers konar vinnubrögð eru það að hafa ekki endurskoðað samning sem rann út í árslok 2000?

Frú forseti. Ekki var staðið við kosningaloforð sem gefið var við síðustu alþingiskosningar um réttarbætur til ungra öryrkja. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir því harðlega að ríkisstjórnin ætli ekki að uppfylla samkomulagið við Öryrkjabandalagið frá því í mars 2003 um aldurstengdar örorkubætur. Eins og fram kemur í áliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 er ljóst að um 500 millj. kr. vantar til að hægt verði að standa við það fyrirkomulag sem kynnt var að taka ætti upp, þ.e. að tvöfalda hækkun grunnlífeyris hjá yngstu öryrkjunum. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest í fjölmiðlum að loforðið við öryrkja hafi ekki verið efnt að fullu. Haustið 2003 talaði ráðherrann um að „greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót (2003/2004) og afgangurinn ári síðar.“ Nú kveður hins vegar við annan tón og ekki á að standa við þennan samning. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 er ekki gert ráð fyrir neinu fé til að standa við afganginn af samningnum eða seinni áfangann eins og heilbrigðisráðherra talaði um fyrir um ári síðan.

Við höfum heyrt hér í umræðum um skattatillögur ríkisstjórnarinnar að hún telur nauðsynlegt að standa við kosningaloforðin um að lækka skatta. Það er alltaf ágætt að geta staðið við loforð sín. En þegar ríkisstjórnin er að velja á milli kosningaloforða þá er forgangsröðunin mjög einkennileg. Það er valið að standa við skattalækkunina en hins vegar ekki valið að standa við aðra samninga sem ríkisstjórnin hefur gert.

Fjárhagur margra sveitarfélaga hefur verið erfiður undanfarin ár. Stöðugt fleiri verkefni hafa verið færð til sveitarfélaganna án þess að þeim hafi fylgt nægir tekjustofnar. Með samþjöppun í sjávarútvegi og sölu fiskveiðiheimilda frá byggðunum hverfa jafnframt fyrirtæki þeirra einstaklinga sem greiddu hæstu gjöldin til sveitarfélaganna. Þessi þróun hefur leitt til þess að mörg bæjar- og sveitarfélög eiga í miklum fjárhagsörðugleikum. Þannig hafa sveitarfélögin verið rekin með halla frá 1990 en samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er líklegt að um 2,8 milljarða kr. halli verði á rekstri sveitarfélaganna árið 2003. Samhliða þessu hafa hreinar skuldir sveitarfélaganna aukist gríðarlega. Einu skilaboðin sem sveitarfélögin fá frá ríkisvaldinu eru að þau eigi að selja eignir. Þetta hefur leitt til þess að mörg sveitarfélög hafa þurft að selja frá sér sínar arðbærustu eignir, svo sem orkubú. Þetta ráð getur aðeins dugað í ákveðinn tíma. Hvað eiga sveitarfélögin að gera þegar þau hafa selt allar eignir sínar og notað söluandvirðið til að standa undir lögbundinni þjónustu við íbúana?

Fylgiskjal I með þessu nefndaráliti er grein sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skrifuðum í Morgunblaðið 29. september þar sem lýst er stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart sveitarfélögunum. Hún ber yfirskriftina Sveitarfélögin svelt til hlýðni. Því miður, frú forseti, virðist engin breyting vera sjáanleg á þeirri stefnu ríkisvaldsins að ætla að svelta sveitarfélögin til hlýðni.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun leggja hér fram breytingartillögur við þetta frumvarp sem miða að nokkru að því að treysta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Auk þess minni ég á að við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum flutt tillögu sem er til meðferðar í þinginu um að verði tekjuskattur ríkisins lækkaður um 1% þá verði það eina prósent fært til sveitarfélaganna og þeim leyft að hækka álagningarhluta sinn sem því nemur til þess að treysta betur fjárhagsstöðu þeirra. Það er ótækt að ríkisvaldið geti einhliða og með hroka lækkað eigin tekjur en látið síðan hinn aðilann sem er líka ábyrgur á móti ríkisvaldinu í að sinna velferðarkerfinu, sinna samfélagsþjónustunni, stöðugt vera sveltan og búa við allt of lága tekjustofna.

Ef við lítum á umhverfismálin þá er það stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og um vernd þeirra og nýtingu verður að ríkja góð sátt. Slíkt gerist ekki fyrr en stjórnvöld opna augu sín fyrir gildi náttúruverndar og læra mikilvægi þess að við nýtingu náttúrulegra auðlinda sé farið að meginsjónarmiðum sjálfbærrar þróunar. Með hliðsjón af því leggur Vinstri hreyfingin – grænt framboð áherslu á að efla stofnanir sem starfa á sviði náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda og gera þeim kleift að sinna sínu þýðingarmikla hlutverki. Þá er ljóst af áliti minni hluta umhverfisnefndar um frumvarp til fjárlaga að margar stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið eiga við verulega fjárvöntun og rekstrarvanda að etja.

Nefna má Náttúrufræðistofnun. Það er brýnt að bæta fjárhag hennar því hún ber uppsafnaðan halla og auk þess þarf að styrkja árlegan rekstrargrundvöll hennar.

Skipulagsstofnun sem líka hefur veigamiklu hlutverk að gegna býr líka við skertan fjárhag. Henni er ætlað að innheimta sértekjur langt umfram það sem raunhæft er þannig að Skipulagsstofnun er gert erfitt að sinna þeim verkefnum sem henni er ætlað að sinna. Það er einmitt verið að færa auknar skyldur til Skipulagsstofnunar, m.a. vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um mat á umhverfisáhrifum árið 2000 sem gera auknar kröfur til stofnunarinnar.

Umhverfisstofnun. Láðst hefur að reikna með fjárveitingu vegna verndaráætlunar fyrir Mývatnssveit sem þó var gert ráð fyrir í lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Einnig er nauðsynlegt að leiðrétta ýmsa fjárlagaliði á vegum Umhverfisstofnunar sem lúta að umhverfismálum og náttúruvernd.

Frú forseti. Fjárlagfrumvarpið eins og það liggur nú fyrir markar ákveðin vatnaskil í ríkisfjármálum. Fyrsti áfangi stórfelldra skattalækkana kemur til framkvæmda. Þeim er mætt með skertum framlögum til velferðarkerfisins, skólagjöldum og sjúklingasköttum. Sérstök framlög ríkisstjórnarinnar til vegamála á kosningaári hafa nú gufað upp og niðurskurður á samþykktri samgönguáætlun á þremur árum nemur tæpum 6 milljörðum kr. Tillögur um hvar sá niðurskurður eigi að koma niður liggja ekki enn fyrir en að sjálfsögðu er það krafa að tillögur um niðurskurð á fjárlögum til samgönguáætlunar verði komnar inn til þingsins fyrir lok 3. umr. þannig að þingið geti tekið afstöðu til þess hvort það samþykki þennan niðurskurð og það hvernig hann komi niður. Ég krefst þess því að endurskoðuð samgönguáætlun þar sem sýnt er hvar þessi niðurskurður eigi að koma niður liggi fyrir áður en við afgreiðum fjárlög héðan. Víst er að íbúar hinna dreifðu byggða, einkum á Vestfjörðum og Norðausturlandi, inn til dala og út til nesja um allt land sem höfðu vænst þess að aukið átak í samgöngumálum mundi flýta fyrir að þeir fengju gott vegasamband, munu telja sig svikna ef brýnum vegaframkvæmdum á þessum svæðum verður enn á ný slegið á frest. Ljóst er að verði gjaldahlið frumvarpsins lokað eins og það liggur nú fyrir mun verða þrengt óhóflega að mörgum stofnunum og brýnum samfélagsverkefnum í grunnþjónustunni. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu mæla fyrir breytingartillögum hér síðar í dag sem leiðrétta að nokkru þessa röngu forgangsröðun meiri hlutans nái þær fram að ganga. Þar mun og verða gerð nánari grein fyrir einstaka málaflokkum sem lúta að fjárlagafrumvarpinu og fjárlagagerðinni.

Þar sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur enn ekki skilað fullnægjandi nefndaráliti um tekjuáætlunina og efnahagshorfur næsta árs verður beðið með umfjöllun um þann hluta frumvarpsins til 3. umr.

Frú forseti. Það verður að átelja vinnubrögð meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Meiri hlutinn hefur skilað inn áliti þar sem á engan hátt er farið í gegnum þær tölulegu forsendur sem liggja að baki tekjuáætluninni né heldur áreiðanleika þeirra. Þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður varð þingið gjörsamlega háð efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem er jú bara hluti af framkvæmdarvaldinu og hefur því ekki á eigin vegum haft tök á að leita umsagna um einstaka liði í tekjuforsendunum.

Þegar ákveðið var að leggja Þjóðhagsstofnun niður var gert ráð fyrir því að á móti gæti þingið leitað umsagna og álits til annarra aðila í samfélaginu sem vinna á þessum vettvangi. Við höfum Seðlabanka Íslands sem er falið það hlutverk að stýra verðbólgustiginu og hefur til þess takmörkuð stýritæki. Við höfum greiningardeildir hinna ýmsu banka og fjármálastofnana sem fjalla líka um forsendur í efnahagsbúskapnum. Við höfum launaþegasamtökin, þau stærstu Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og fleiri aðila sem stöðugt meta efnahagsforsendurnar og áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar á einstaka þætti efnahagslífsins. Það ætti því að vera skýlaus krafa að efnahags- og viðskiptanefnd kallaði þessar stofnanir fyrir sig og færi nákvæmlega í gegnum þær forsendur sem byggt er á, ekki síst í ljósi hins ótrygga ástands sem við nú stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum.

Ég krefst þess því hér, og lét einnig bóka það í fjárlaganefnd, að ítarlegt og vandað álit komi frá efnahags- og viðskiptanefnd þar sem vandlega er farið yfir efnahagsforsendurnar og tekjuáætlun og tekjuforsendur fjárlaganna eins og lög gera ráð fyrir. Fjárlaganefnd tekur fyrst og fremst á gjaldahliðinni og vinnur hana. En ætlast er til þess að efnahags- og viðskiptanefnd vinni að tekjuhliðinni þó svo að það sé síðan fjárlaganefndar að afgreiða málið í heild sinni til þingsins.

Frú forseti. Með þessu nefndaráliti fylgja allnokkur fylgiskjöl, t.d. fylgiskjal um stöðu sveitarfélaganna, grein eftir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og mig sem birtist í Morgunblaðinu 29. september og heitir Sveitarfélögin svelt til hlýðni. Þar er rakin í stuttu máli staða sveitarfélaganna og samskiptin við ríkisvaldið.

Einnig fylgir minnisblað frá Félagi íslenskra framhaldsskóla og skólameistarafélagi Íslands. Það ber yfirskriftina Fjárhagsstaða framhaldsskólanna. Þar eru raktir í nokkrum atriðum helstu þættir vanda framhaldsskólanna og erfiðleikar samskipta ríkisvaldsins og framhaldsskólanna hvað varðar fjármögnun og viðurkenningu á fjárþörf bæði til rekstrar og stofnkostnaðar.

Einnig fylgir minnisblað frá Háskólanum á Akureyri sem gerir grein fyrir fjárhagsstöðu hans og hvernig einnig er þrengt að honum hvað varðar fjárhag bæði til kennslu og rannsókna. Þetta er skóli sem við höfum öll verið mjög stolt af að hafi fengið tækifæri til þess að vaxa og þróast og eflast. Hann má núna einnig búa við að að honum er þrengt með fjárveitingum.

Hérna er einnig minnisblað frá Háskóla Íslands þar sem bent er á verulega fjárvöntun bæði til kennslu og rannsókna til þess að háskólinn geti tekið á móti nemendum eins og honum ber lögum samkvæmt og eins líka til þess að geta sinnt því rannsóknarhlutverki sem honum er ætlað. Fylgir þarna ítarlegt álit frá Háskóla Íslands.

Álitinu fylgir einnig bréf frá Ferðamálasamtökum Íslands. Þrátt fyrir að ferðaþjónusta sé vaxandi atvinnuvegur í íslensku atvinnulífi — hún er að verða annar eða þriðji stærsti atvinnuveitandi landsins og farin að skila næstmestum nettógjaldeyristekjum til þjóðarinnar — þá eru framlög til ferðamála lækkuð, skorin niður í þessum fjárlögum.

(Forseti (JóhS): Forseti áformar að gera matarhlé innan stundar. Forseti vill spyrja ræðumann hvort hann eigi ekki eftir nokkuð af ræðu sinni. Forseti bendir líka á að tveir hv. þingmenn hafa óskað eftir að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns þannig að ef þingmaðurinn á eitthvað eftir mun forseti óska eftir því að ræðumaður fresti máli sínu til klukkan hálftvö.)

Frú forseti. Ég á um það bil eina mínútu eftir af ræðu minni. Ég kýs því að ljúka henni þannig að við ljúkum þessu bara núna á næstu mínútum.

(Forseti (JóhS): Forseti óskar eftir því að þessu ljúki núna. Klukkan er orðin eitt og þá er áformað hlé. Það eru tvö andsvör sem taka kannski korter. Það er of langur tími miðað við áætlanir okkar.)

Þá passar ágætlega að ég ljúki eftir eina mínútu, frú forseti.

Ég hef nefnt fylgiskjal frá Ferðamálasamtökum Íslands um skertar fjárveitingar til ferðamála. Ég hef hér rakið (Forseti hringir.) samkomulag við öryrkjana og …

(Forseti (JóhS): Forseti óskar eftir því að ræðumaður fresti máli sínu. Við getum ekki slitið í sundur andsvörin og ræðu hv. þingmanns þannig að forseti óskar eftir því að ræðumaður fresti ræðu sinni.)

Þá frestar ræðumaður ræðu sinni, frú forseti, og við fáum okkur bara hádegisverð. Svo tökum við til af fullum krafti hér á eftir og stöndum saman í því.