131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:16]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er já.

Það hafa legið fyrir nokkuð lengi áform og vilji Sjálfstæðisflokksins til skattalækkana. Þar hefur það verið hluti af prógramminu að lækka virðisaukaskatt af matvælum. Það hefur komið til nokkurrar andstöðu vegna þess að átök voru um málið þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður úr 24 í 14%. Sumir töldu það hættulegt vegna þess að það gæti verið að bora gat á kerfið, en ég tók eftir því í umræðum í fyrradag að hæstv. forsætisráðherra tók það fram að sú hætta hefði sannarlega verið til staðar þá, en að færa þetta niður núna væri engin aukin hætta. Ég skildi því orð hans þannig að það gæti verið að myndast um það þverpólitísk samstaða, a.m.k. milli Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og framsóknarmanna, að þetta væri leið sem við ættum að skoða í mikilli alvöru.