131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:19]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það voru nokkrir kaflar í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem vöktu undrun mína, m.a. sá sem fjallaði um málflutning stjórnarandstöðunnar. Ég verð að játa það, frú forseti, að ég heyrði ekki alla ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, en kaflinn í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar átti alla vega ekki við þá ræðu sem ég flutti í morgun, vegna þess að þar fjallaði ég sérstaklega um vaxandi útgjöld ríkissjóðs og áhyggjur okkar af því og um aukningu í samneyslu sem við höfum einnig áhyggjur af. Ég held því að við séum sammála um það, ég og hv. þm., að af þessu þurfum við að hafa áhyggjur. Ég þarf líklega í seinna andsvari mínu að fara yfir þær tölur sem hann fór með því það sló eitthvað saman árum hjá hv. þm.

Verðbólguskýringar hv. þm. voru á köflum afar sérkennilegar og ég verð að spyrja hv. þm. varðandi áhyggjur hans af verðbólgunni, hvort það sé ekki rétt skilið miðað við fyrri andsvör hv. þm. að hann telji að matarskattslækkunin eigi miklu frekar heima í skattalagabreytingunum til þess að verjast verðbólgunni heldur en þær skattalagabreytingar (Forseti hringir.) sem nú eru boðaðar.