131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:25]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Það var að vonum, virðulegi forseti, að þessi hv. þm. tæki umræðu mína um þróun öryrkja og fjölgun þeirra sem einhverja persónulega árás á sig. Ég var einmitt að hvetja menn til þess að fjalla um þessa hluti í alvöru en ekki í skætingi. Þróunin hefur verið mjög á svipaðan veg sums staðar á Norðurlöndum, ég tala nú ekki um í Noregi sem hefur haft alla forustu um þetta. Svo er komið fyrir því góða landi að 10% Norðmanna teljast öryrkjar. Þeir líta á það sem samfélagslegt vandamál sem þeir verði að taka á. Það er ekki umhyggja fyrir öryrkjum. Það er ekki umhyggja fyrir þeim sem eiga bágt og geta ekki starfað að vilja fjölga þeim svo óhugnanlega sem raun ber vitni í Noregi. Við erum með sömu hraðaaukningu, 7% á ári. Það getur ekki verið eðlilegt og ég vek athygli á því og er ekki feiminn við það, læt mig hafa það þó hv. þm. telji það ástæðu til þess að fara í eitthvert persónulegt níð út af því.