131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:28]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. kýs þann kostinn að bæta í, bæta í níðið, þá verður hann að velja það.

Hins vegar, virðulegur forseti, hefur enginn svo ég muni talað eins oft um kjarasamninga hins opinbera og sá sem hér stendur. Ég minnist þess ekki þegar ég hef verið að gagnrýna kjarasamninga hins opinbera að nokkur maður hafi komið mér til aðstoðar eða tekið undir það. Ég man ekki eftir því, allra síst að menn frá Samfylkingunni teldu kjarasamninga hins opinbera eitthvað linkulega.

Nú eru kjarasamningar lækna orðnir eitthvað innanflokksmál hjá Sjálfstæðisflokknum. Eru engin takmörk fyrir ruddaskapnum sem ákveðnir þingmenn geta látið út úr sér í þessum ræðustól? Telja þeir sér virkilega til bóta að vera með slíkt níð um mig að ég hafi verið að fótumtroða öryrkja með lagasetningu á Alþingi? Telja þeir sig virkilega vera að bæta stöðu sína eða bæta stöðu nokkurra í þjóðfélaginu með slíku tali? (Gripið fram í.) Ef það er hugarheimur hans, verð ég að segja honum, virðulegi forseti, að hann sé á miklum villigötum.