131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:44]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er sönn ánægja að tala hér um barnakort. Öll börn undir sjö ára aldri fá ótekjutengdar barnabætur að ákveðinni upphæð tilskilinni. (JóhS: Þið lofuðuð til 16 ára.)

Svo er það þannig í þessu stjórnarsamstarfi að við erum í mjög heiðarlegu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, (JóhS: En ekki við kjósendur?) mjög heiðarlegu. Þetta verður væntanlega skoðað eins og annað í því samhengi, t.d. virðisaukaskatturinn og annað. Við höfum haft mjög mikinn áhuga á því að skila barnafólki beint í vasann án milliliða þeim tekjum sem það þarf til þess að reka heimili sín sómasamlega, til þess að geta sinnt sínum börnum. Stefna Framsóknarflokksins í þeim efnum er alveg skýr.

Hvað varðar hins vegar fæðingarorlofið þá er það nú þannig að útgjöld til Fæðingarorlofssjóðsins hafa aukist allverulega frá stofnun hans. Það var engin heilög tala í upphafi þegar við stofnuðum þennan sjóð að við mundum greiða 80% af heildarlaunum. (Gripið fram í: Nú!) Það var engin heilög tala. Við vorum í ákveðnu tilraunaverkefni til þess að sjá hvernig viðbrögðin yrðu. Það getur vel verið að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir komi færandi hendi upp í ræðustól með 600 millj. kr. á sama tíma og hún talar um að við þurfum að gæta aðhalds í ríkisútgjöldum. Það getur vel verið að hún finni hérna fleiri, fleiri milljarða líka til þess að bæta 74 búsetuúrræði fyrir geðfatlaða, (JóhS: 77.) 77. Við erum að klára málefni fatlaðra. Næst verða það geðfatlaðir. Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í búsetuúrræðum fyrir fatlaða. Ég sagði það akkúrat áðan — hv. þingmaður má ekki snúa út úr mínu máli — að næst á dagskránni er málaflokkur geðfatlaðra. Þar er mikil neyð. Það viðurkenni ég.