131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:47]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki áttað sig á því að ákveðin kerfisbreyting hefur átt sér stað í húsbréfakerfi landsmanna. Fólk borgar í dag 4,15% vexti í stað 5,1% sem fólkið greiddi í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún sat í ríkisstjórn. Hér munar einu prósenti. (Gripið fram í.) Hvernig var það á þeim tímum, hver voru afföllin á húsbréfalánunum? Tugir prósenta. (Gripið fram í.) Hvernig hafði unga fólkið það þá? Það fékk engin 90% lán. Það var á tímum Húsnæðisstofnunar þegar einhver maður sagði við ungan mann eða unga konu: Þú átt að búa þarna. Fólk réði ekki einu sinni í þá daga hvar það settist að. Þetta er náttúrlega með ólíkindum og sýnir hvað tímarnir hafa breyst frá því að hv. þingmaður var félagsmálaráðherra. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Átthagafjötrar?) Svona hafa tímarnir breyst, hv. þingmaður.