131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:48]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur farið hér mikinn. Það var athyglisvert samt að hann undirstrikaði að hann væri í mjög heiðarlegu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og lýsti mjög fjálglega þjónkun Framsóknarflokksins við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þessi þjónkun Framsóknarflokksins gengur svo langt að það hriktir orðið í stoðum hans úti um allt land eins og við höfum ærið fengið að heyra. Það var mjög athyglisvert hvernig hv. þm. útlistaði þjónkun Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að kjósendum hans samt sé ekki öllum sama um það.

Þjónkunin er svo mikil að það varð að svíkja samninginn við öryrkja, samning sem var gortað af fyrir kosningar 2003 og sagt að enginn mundi leyfa sér að rjúfa. Þegar komið var fram á haust á sl. ári var sá samningur rofinn. Þjónkunin — við vorum í svo heiðarlegu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að við erum að þjónka honum líka hvað það varðaði að ganga á bak þessum samningum, eru skilaboð Framsóknarflokksins. Það væri líka fróðlegt að heyra stefnu Framsóknarflokksins, a.m.k. hv. þm. Birkis J. Jónssonar — ég geri ráð fyrir að framsóknarmenn geti haft mismunandi skoðanir á þessu — í skólagjaldamálum.

Við umræðuna hér um skólagjöldin í háskólunum, 40% hækkun á innritunargjöldum sem eru jú bara óbein skólagjöld, lýsti hv. þm. því að það yrði skoðað mjög vandlega. Er þingmaðurinn sammála þessum hækkunum á innritunargjöldum í háskólana? Það á að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík. Í viðtölum við forsvarsmenn þeirra skóla hefur komið fram að það væri eðlilegt að tekin yrðu upp skólagjöld sem eru nú 200 þús. kr. á ári við Háskólann í Reykjavík og yrði hliðstætt í Tækniháskólanum. Er þingmaðurinn sammála þeirri stefnu?