131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:01]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Strútsegg köllum við skilgetið afkvæmi þeirrar eindregnu viðleitni að stinga höfðinu í sandinn. Hókus-pókus. Tíu milljarða afgangur af ríkissjóði á pappírunum eins og venjulega. Ár eftir ár horfast menn ekki í augu við fyrirsjáanleg útgjöld og veruleikinn er árið 2002: 6 milljarða kr. halli, árið 2003: 8 milljarða kr. halli.

Í öðru lagi neitar stjórnin að horfast í augu við að munurinn á hinum ríku og hinum fátæku í samfélaginu eykst sífellt. Hún leggur lóð sín á þær vogarskálar með því að skenkja tekjuháum skattalækkanir en skerða vaxtabætur til skuldugra og svíkja samning sinn við fátækasta fólkið í landinu, öryrkja.

Í þriðja lagi hlusta þeir ekki á umræðuna í samfélaginu, um hæsta matvöruverð í heimi, og hafna skynsamlegum tillögum Samfylkingarinnar um lækkun matarskatts.

Í fjórða lagi skella þeir skollaeyrum við aðvörunarorðum Alþýðusambandsins og atvinnulífsins um hættuna á þenslu, ofþenslu og verðbólgu og hafna ábyrgum og skynsamlegum skattatillögum Samfylkingarinnar, sem leiða mundu til lækkunar neysluvísitölu um 0,8% og þar með hemja skuldir heimilanna.

Gorgeir, hæstv. fjármálaráðherra, gorgeir er það orð sem manni helst kemur í hug þegar maður situr undir ræðum stjórnarliða um ríkisfjármálin. Þar er talað eins og enginn maður þurfi að hafa áhyggjur af neinu og þar fái allir allt.

Það má út af fyrir sig til sanns vegar færa að allir fái allt, þ.e. allir í stjórnarliðinu. Það aðhaldsleysi í ríkisfjármálunum og sú mikla skekkja sem reynst hefur á áætlunum og niðurstöðum er auðvitað að stórum hluta til komin vegna þess að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hangir á tveimur atkvæðum. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hangir á tveimur atkvæðum og forsendan fyrir því að sá meiri hluti geti hangið áfram, er að í stjórnarliðinu fái allir alltaf allt.

Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur af því að á þeim þenslutímum sem nú fara í hönd sé þessi ríkisstjórn ekki nægilega öflug og ekki nægilega þróttmikil til að halda þeirri stjórn á ríkisfjármálum sem nauðsynlegt er svo verðbólgan fari ekki úr böndunum, eins og gerðist rétt upp úr árinu 2000 þegar við heyrðum, t.d. hjá hæstv. fjármálaráðherra, sama gorgeirinn um að allt væri í lukkunnar velstandi og engin ástæða til að hafa áhyggjur. Þá var sagt að varnaðarorð Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, væru tómt svartnætti. En í ljós kom að verðbólgan fór á einu ári í 9% og hækkaði samsvarandi skuldir heimilanna í landinu.

Það má sannarlega ekki gerast nú því að unga fólkið í landinu er í stórum stíl að taka 90 og 100% veðlán til að kaupa sér fasteignir. Hvar skiljum við það eftir ef við missum tökin á verðbólgunni? Nei, það er ástæða til að hafa áhyggjur þótt auðvitað sé full ástæða til að vona hið besta. Það er full ástæða til að vona að stjórnarmeirihlutinn reynist vandanum vaxinn og reyni að liðsinna honum við að halda nokkurri stjórn á hlutunum.

Það er, virðulegur forseti, auðvelt að galdra. Maður setur bara hatt á borð, stingur hendinni ofan í hattinn og svo dregur maður kanínu upp úr hattinum. Það eina sem maður þarf að hafa vit á að gera er að koma kanínu fyrir í hattinum áður en töfrasýningin hefst svo maður hafi eitthvað upp úr honum að draga.

Þessi fjárlög og þau fjárlög sem ég sá hér fyrir ári eru ekki þess háttar töfrasýning. Í þessum hatti er engin kanína. Í hatti hæstv. fjármálaráðherra er engin kanína. Ég er hins vegar búinn að fatta trixið, eins og krakkarnir mundu segja, sem hér er viðhaft við fjárlagagerð. Það olli mér mikilli undrun þegar ég kom til Alþingis síðastliðið haust sem nýliði. Þá skildi ég alls ekki hvers konar verklag þetta var. Hér vorum við í nefnd, eftir nefnd, eftir nefnd að benda stjórnarliðum á sjálfsagða hluti, á að augljóst væri að það vantaði t.d. 900 millj. kr. í Fæðingarorlofssjóð. Þeir skelltu skollaeyrum við, neituðu að horfast í augu við veruleikann og hvað gerist? Á fjáraukalögum koma 900 millj. kr. í Fæðingarorlofssjóð, af því að auðvitað vantaði þær í fjárlögin. Við bentum á niðurskurðinn á lyfjunum sem engar forsendur voru fyrir og ekkert var á bak við. Hver var raunin? Sparnaðurinn þar var aðeins á pappírunum en náðist ekki fram. Þannig mætti áfram telja.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort atvinnuleysið væri ekki vanáætlað. Ó nei, það var nú aldeilis ekki. Hvað fáum við í fjáraukalögum? Auknar fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég spurði sjálfan mig, nýr á þingi: Hvernig stendur á þessu? Þetta er ekki spurning hægri eða vinstri pólitík, virðulegur forseti. Hér er ekki verið að takast á um strauma og stefnur í stjórnmálum. Hér sat ég á Alþingi Íslendinga í virðulegri fjárlaganefnd en þegar mönnum var bent á augljósar staðreyndir um fyrirsjáanleg útgjöld ríkisins þá lokuðu þeir bara augunum. Svo komu reikningarnir samt.

Er nema von að ég hafi velt fyrir mér hvernig þetta ferli gengur fyrir sig? En síðan hef ég lært hvernig það er. Það er sem sagt þannig að áður en menn setjast að fjárlagagerðinni ákveða þeir hver afgangurinn á að vera. Hin síðustu ár hefur hann verið ákveðinn á bilinu 0,5–1% af landsframleiðslu, þetta 4–8 milljarðar kr. í fyrra. En í ár þarf hann að vera meiri því að það á að sýna aðhald í ríkisfjármálum. Þá er afgangurinn á fjárlögunum ákveðinn fyrir fram, hann skal vera 10 milljarðar kr. Við ætlum að skila frumvarpi upp á 10 milljarða kr. Svo fara menn að vinna, eins og þeir kalla það, þ.e. að skrifa tölur inn í þetta fjárlagafrumvarp þannig að eftir standi á blaðinu 10 milljarða kr. afgangur. Það er ekki unnin nein önnur vinna en það.

Menn neita einfaldlega að horfast í augu við þau útgjöld sem fyrirsjáanleg eru, fara ekki í nauðsynlega hagræðingu og sparnaðaraðgerðir, endurskoða ekki lög og reglugerðir til að ná raunverulegum árangri og þess vegna flæða bakreikningarnir inn, 10–18 milljarða kr. á fjáraukalögum ár hvert og enn þá meira í blessuðum ríkisreikningnum.

Þetta vinnulag, virðulegur forseti, nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það skapar ekki þann stöðugleika og þá festu í ríkisfjármálunum sem atvinnulífið og verkalýðshreyfingin hafa kallað eftir. Þá kemur hæstv. fjármálaráðherra og sakar óreglulega liði um að eiga sök á öllum vandanum, rétt eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sakaði í ræðu sinni fyrr í dag alla aðra aðila í heimunum um að eiga aðild að verðbólgunni á Íslandi en ríkisstjórnina. Þessir óreglulegir liðir eru afskriftir skattakrafna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar tekjufært, í 14 ár í röð, áætlanir á sköttum á einn einstakling sem aldrei hefur borgað krónu. Þegar þetta er niðurfært í reikningunum telur hæstv. fjármálaráðherra það ákaflega ófyrirsjáanlegt og ákaflega óreglulegt. Því fer auðvitað fjarri. Ofáætlanir á skatttekjum með þessum hætti hafa verið ákaflega reglulegar og numið verulegum upphæðum. Það sem menn hafa talið sér til tekna, án þess að innstæða væri fyrir því, verður auðvitað að færa til gjalda. Það verður auðvitað að vera í fjárlögunum sjálfum. Það eru ekkert annað en flóttamenn og náttúruhamfarir sem ekki rúmast í fjárlögunum sem geta komið sem óreglulegir liðir á ríkisreikningi.

Lífeyrisskuldbindingar er einn liðurinn sem ítrekað hefur verið vanáætlaður í reikningum ríkisins. Því skyldi það vera? Var t.d. ekki fullkomlega fyrirsjáanlegt að gerður yrði kjarasamningur við grunnskólakennara í ár? Jú, og auðvitað átti að áætla fyrir lífeyrisskuldbindingum sem sá kjarasamningur mundi leiða af sér. Þær lífeyrisskuldbindingar þarf að borga.

Það er út af fyrir sig rétt að menn geta ekki alltaf áætlað nákvæmlega. Stundum hlýtur það að reynast minna og stundum meira. En þegar vanáætlanir í fjárlagafrumvarpinu síðustu ár eru skoðaðar kemur í ljós að það er alltaf áætlað í vitlausa átt. Það er alltaf vanáætlað. Það er með skipulögðum hætti reynt að draga fram fegurri mynd í fjárlagafrumvarpinu en innstæða er fyrir. Það er áhyggjuefni.

Það er gleðilegt, virðulegur forseti, að stjórnarandstaðan mæti til 2. umr. samstiga. Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn flytja breytingartillögur við fjárlögin allar saman og að sex höfuðtillögum standa flokkarnir að ásamt Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Til að undirstrika ábyrgð okkar í Samfylkingunni í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir því að þær tillögur skili meiri afgangi í ríkissjóð en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þær fela ekki í sér að það dragi úr rekstrarafganginum, heldur þvert á móti. Þrjár þessara tillagna flytja formenn stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson. Þær lúta að þremur liðum fjárlaganna. Í fyrsta lagi er liðurinn 09-811, en þar er lögð til hækkun á liðnum Barnabætur, um 2.400 millj. kr. Það er tillaga okkar í stjórnarandstöðunni að þeir fuglar í skógi sem barnabætur ríkisstjórnarinnar eru árin 2006 og 2007 verði þegar að veruleika á næsta ári. Miðað við málflutning stjórnarliða í dag, um hversu kært þeim er um barnabæturnar, þá hljóta þeir að endurskoða forgangsröð sína í þeim efnum og koma til liðs við barnafjölskyldurnar í landinu eins drjúglega og þeir hafa talað í átt til þeirra.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir hækkun á liðnum 09-821. Það er liðurinn Vaxtabætur, sem hækkar um 300 millj. kr. Við teljum öldungis fráleitt, nú þegar svo gleðilega vill til í íslensku samfélagi að það er borð fyrir báru til að lækka skatta, að menn skuli á því augnabliki nota tækifærið og skerða vaxtabætur til skuldugasta fólksins, unga fjölskyldufólksins sem er nýbúið að taka 90 eða 100% lán til fasteignakaupa, og þarf að geta treyst forsendunum sem voru í vaxtabótaútreikningum þegar það réðst í fjárfestingar sínar, að þær forsendur haldi, virðulegur forseti.

Unga fólkið í landinu verður að geta treyst því að þegar það reiknar út greiðslubyrði sína af húsnæðislánunum standi vaxtabæturnar, en ekki sé verið að skerða þær ár frá ári, vegna þess að ef ríkisstjórnin gengur þannig fram við að raska forsendum ungs fólks í húsnæðiskaupum hættir fólk auðvitað að sjá tilgang með því að gera áætlanir, ef stjórnvöld ganga þannig fram að raska ár frá ári þeim forsendum sem unga fólkið hefur lagt fyrir fjárfestingum í mikilvægustu eign sinni, heimilinu.

Í þriðja lagi gera formenn stjórnarandstöðuflokkanna tillögu sem ekki er síst mikilvæg þó ég tilgreini hana síðar, en það er hækkun á liðnum 08-204 Lífeyristryggingar, um 560 millj. kr. Hér er um sömu tillögu að ræða og við fluttum í fyrra, stjórnarandstaðan, þá sá sem hér stendur og hv. þingmenn Frjálslynda flokksins, um að hjálpa ríkisstjórninni við að standa við samkomulag sitt við Öryrkjabandalag Íslands. Það vantaði í fyrra um 500 millj. kr. upp á að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, og hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, efndu þann samning sem þeir gerðu persónulega við Öryrkjabandalag Íslands fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég sakna þess sannarlega að hæstv. forsætisráðherra sé ekki á þingi nú til að ræða þessi mál, því hann kom sannarlega sjálfur að þeim viðræðum við Öryrkjabandalagið, hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson. Þar sem hann hefur skorast undan því að eiga utandagskrárumræður um þann samning sem hann vann að með hæstv. heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, vona ég a.m.k. að hann verði tiltækur við 3. umr. um fjárlög til að verja framgang ríkisstjórnar sinnar. Nú liggur fyrir sú ákvörðun Öryrkjabandalags Íslands að verði samningurinn ekki efndur í þessum fjárlögum eigi bandalagið engra kosta völ annarra en að stefna ríkisstjórn Íslands til að fá fullnustu á þeim samningi sem gerður var. Það er algerlega augljóst hverjum þeim sem kynnir sér málið um hvað samið var. Það liggur fyrir skjalfest og í munnlegum yfirlýsingum ráðherra og blandast engum hugur um hvað var samið um. Ég hlýt að telja verulegar líkur á því að það sé svo augljóst að dómstólar eigi ekki annarra kosta völ en að staðfesta um hvað samningurinn var.

Þá hlýtur maður að spyrja hver væri við slíkar aðstæður staða ríkisstjórnar Íslands. Ef hún hefur svikið samning hvers efni var svo augljóst að jafnvel fyrir dómstólum væri ekki annað hægt en að staðfesta. Þá þýðir ekki að koma eins og hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hefur ítrekað gert í átökum sínum og árásum á Öryrkjabandalagið og segja: „Við gerðum það ekki viljandi.“ Því það er algerlega með opin augu og fullkomlega viljandi sem ríkisstjórn Íslands gengur á bak þeim samningi sem gerður var við Öryrkjabandalagið. Sá samningur um kjör öryrkja hefur ekkert með fjölgun öryrkja að gera. Þó menn reyni að beina athyglinni eitthvert annað og reyni með áróðri að kynda undir fordómum í garð þeirra sem höllustum fæti standa, hefur samningurinn við Öryrkjabandalagið ekkert með fjölgun öryrkja að gera, hann hefur með fækkun framsóknarmanna að gera.

Staðreyndin er sú að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, var tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að fjármagn kæmi til samninga við Öryrkjabandalag Íslands þegar hann horfðist í augu við það tveimur mánuðum fyrir kosningar að hann næði ekki kjöri á Alþingi Íslendinga í Reykjavíkurkjördæmi norður, vegna þess að fylgi Framsóknarflokksins var komið niður í 8%. Þá var róinn lífróður og Framsóknarflokknum var ljóst að stór hluti af því fylgistapi sem hann hafði orðið fyrir var að hann hafði ásamt Sjálfstæðisflokknum gengið mjög hart fram gagnvart öryrkjum í landinu, svo hart að aftur og aftur varð að höfða mál gegn ríkisstjórninni, gegn Framsóknarflokknum, til að fá viðurkennd fyrir æðstu dómstólum þjóðarinnar lágmarksmannréttindi öryrkja. Svo naumt var framfærslan skömmtuð mönnum að niðurstaða Hæstaréttar Íslands var að það bryti í bága við stjórnarskrá þau kjör sem Framsóknarflokkurinn ætlaði að búa öryrkjum.

Hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, ákvað að fjármagna samning hæstv. heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, til að komast í gegnum kosningarnar og ná kjöri til Alþingis. Ef sú staða hefði ekki verið uppi hefði Jón Kristjánsson, hæstv. heilbrigðisráðherra, aldrei fengið stuðning formanns Framsóknarflokksins til þess að verja meira fjármagni til öryrkja því þannig hefur forgangsröðunin ekki verið hjá Framsóknarflokknum sjálfviljug, hún varð það aðeins á stund neyðarinnar þegar allt útlit var fyrir að ríkisstjórnin væri fallin fyrir fullt og allt. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gætu ekki myndað stjórn aftur og að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, næði ekki kjöri til Alþingis. Þá allt í einu voru til peningar og þá var Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn til þess að leyfa Framsóknarflokknum að gera þetta.

Það getur verið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki lofað Halldóri Ásgrímssyni, hæstv. forsætisráðherra, meiri stuðningi en 1 milljarði í þetta verkefni, en það breytir engu um það hvað samið var um. Það sem samið var um í samningnum á að efna. Það stendur upp á ríkisstjórn Íslands að efna það samkomulag sem gert var í hennar nafni, jafnvel þótt þingflokkur sjálfstæðismanna hafi ætlað að hann mundi kosta minna en reyndin varð, vegna þess að það var ekki samið um heildarupphæðina, það var samið um útfærsluna.

Í Morgunblaðinu var öllum kjósendum birt nákvæmlega hvað hver og einn öryrki í landinu ætti að fá í mánaðarlegar greiðslur. Hvað sá sem væri 35 ára ætti að fá, hvað sá sem væri 43 ára ætti að fá og hvað sá sem væri 56 ára ætti að fá. Slíka samninga á að efna og það stendur upp á ríkisstjórnina að gera það. Ég hvet hana eindregið til þess að efna þetta samkomulag sem ég í upphafi þingferils míns hrósaði þeim svo mikið fyrir að hafa gert. Ég hvet ríkisstjórnina til að hlífa Öryrkjabandalagi Íslands við því að þurfa enn einu sinni að draga ríkisstjórnina fyrir dómstóla.

Ég hef farið yfir öll gögn málsins. Þau gögn sem kynnt voru blaðamönnum. Þau gögn sem blaðamenn birtu. Þær tillögur og þann samning sem sendur var Tryggingastofnun til útreiknings í kjölfar undirritunar samkomulagsins. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra á Alþingi fyrir ári eftir efndum á samkomulaginu. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í þessum stól og ég trúi því að hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, ljúgi ekki að Alþingi, að hann yrði að áfangaskipta efndunum vegna þess að hann hefði ekki fjármagn nema til að uppfylla 2/3 hluta samkomulagsins. Þannig að ekki aðeins gögn málsins, ekki aðeins fréttir fjölmiðlanna, ekki aðeins yfirlýsingar stjórnmálamannanna, heldur orð hæstv. heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, í ræðustól á Alþingi Íslendinga taka af allan vafa um það hvað samið var um. Auðvitað vitum við að um samninga, eins og samninga um kjör öryrkja eða kjör lækna eða kjör grunnskólakennara, geta menn misreiknað sig um hver kostnaðurinn við samningsgerðina verður þegar upp er staðið. En þó að samningar verði dýrari en ætlað var í upphafi verða menn að efna samningana.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra, vegna þess að hann er því miður einn til svara um þetta efni á þessum fundi, hvort það sé algerlega loku fyrir það skotið að fyrir 3. umr. komi tillögur ríkisstjórnarinnar í þessu efni, eða hvort óhjákvæmilegt sé að hæstv. ríkisstjórn verði dregin fyrir dómstóla og þeir fengnir til þess að úrskurða um það hvert hafi verið efnisinnihald þess samnings sem gerður var.

Ég hlýt jafnframt að spyrja ráðherrann, ef hann ætlar ekki að koma hingað með nýjar tillögur fyrir föstudag í næstu viku, hverjum augum hann liti slíka málsókn og hvort hann telji ekki algerlega óhugsandi fyrir ríkisstjórn Íslands að vera enn einu sinni dæmd fyrir að brjóta gegn fátækasta fólkinu á Íslandi og svíkja þá samninga sem gerðir hafa verið við það.

Fyrr í dag, í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, var minnst á misnotkun á örorkubótum. Ég mætti þeim dylgjum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar af fyllstu hörku, enda full ástæða til. Ég hef ekki kallað þessa þingmenn Sjálfstæðisflokksins til ábyrgðar fyrir samninginn við Öryrkjabandalagið. Ég hef gert alveg skýra grein fyrir því að það væru hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, og hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, sem vegna hagsmuna Framsóknarflokksins gerðu þann samning og beri á honum fulla ábyrgð. Ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja endilega taka að sér brjóstvörnina í málinu og reyna að beina athyglinni annað með dylgjum í garð öryrkja um misnotkun á kerfinu er alveg sjálfsagt að taka þá umræðu. Við vitum það öll, það er alltaf svo og hefur alltaf verið þannig að félagsleg kerfi eru að einhverju leyti misnotuð. Ekki bara félagsleg kerfi, ég hygg öll kerfi. Það er hlutverk okkar og skylda að reyna að tryggja það eins og við frekast getum að slík misnotkun sé í algjöru lágmarki. Vilji menn grípa til aðgerða í því skyni skal ekki standa á mér. Vilji menn rannsaka misnotkun og grípa til aðgerða, setja reglur eða annað slíkt, skal ekki standa á mér. En að dylgja um heila stétt manna, um misnotkun sem menn hafa engar staðfestingar fyrir, engin dæmi um og engar tillögur um hvernig á að bregðast við er ósæmilegt. Það er einfaldlega ósæmilegt, því við vitum sem hér störfum að með líkum hætti má dylgja um fjölmargar stéttir í samfélaginu en það er ekki samboðið virðingu hins háa Alþingis að gera það.

Hér var einfaldlega reynt að beina ljósinu frá því að ríkisstjórnin sveik samkomulag sitt við efnaminnsta fólkið í landinu og hefur reynt að draga upp þá mynd að öryrkjar og fjölgun þeirra væri helsti veikleikinn í fjárlagafrumvarpinu. Það sagði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Heyr á endemi. Halda menn að þær lágu bætur sem öryrkjar þiggja og fá, að jafnvel þó einhver hluti þeirra sé þar ekki á bótum með réttu, að þær upphæðir séu það sem sköpum skipti í frumvarpinu? Nei, fjarri því. Eins og ég hygg að ég hafi farið ágætlega yfir í fyrri andsvörum mínum við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson er útgjaldavandinn í heilbrigðismálum sannarlega ekki öryrkjarnir. Trúlega heldur launaþróunin í heilbrigðiskerfinu almennt, ekki síst hjá læknunum, eins og hv. þingmaður hefur oftar en einu sinni vakið athygli á. Ég treysti því að hæstv. heilbrigðisráðherra komi og vona svo sannarlega að hann komi til að færa okkur þær góðu fréttir að menn hafi loks ákveðið að koma með síðari áfangann sem hann gat um í ræðu sinni í fyrra.

Í frumvarpinu eru auðvitað fjölmargir hlutir sem eru aðfinnsluverðir, en ég held að ég vilji ekki draga athyglina frá þeim gagngeru svikum við öryrkja með því að fjalla um þá að þessu sinni, en geymi mér það til 3. umr.

Ég þakka samnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd fyrir ágæta samvinnu við gerð og vinnslu fjárlaganna þetta árið. Fjárlaganefnd skilaði í sjálfu sér viðbótartillögum sínum á milli umræðna og ég vil segja að þær eru snöggtum betur unnar en í fyrra. Ég hef kallað eftir yfirliti um skiptingu þeirra milli kjördæma. Það er eðli þessara styrkveitinga að þær leita meira á landsbyggðina enda þörfin meiri þar og ég vil ekki gera lítið úr því. En hún virðist skiptast með jafnari hætti milli landsbyggðarkjördæmanna en var á síðasta ári, og er það vel.

Styrkir nefndarinnar til húsafriðunarmála voru líka sem betur fer þetta árið unnir í góðu samráði við framkvæmdastjóra húsafriðunarnefndar en ég tel að þær umtalsverðu fjárveitingar, kvartmilljarður eða svo, sem fjárlaganefndin deilir út til safnastarfsemi hingað og þangað um landið þurfi með sama hætti að fara fram í nánu og faglegu samráði við safnaráð við gerð næstu fjárlaga og þannig megi bæta nokkuð vinnubrögðin við fjárlagagerðina.

Vegna þess að hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, hefur gefið fyrirheit um það að á nýju ári muni menn ganga í gagngera endurskoðun á fjárlagavinnunni vil ég að endingu brýna hv. formann í því efni. Það gengur auðvitað ekki að það sé alltaf eins mikil skekkja frá áætlunum til niðurstöðu og raun ber vitni. Það getur ekki gengið að þegar þingmenn benda á sjálfsagðar staðreyndir um útgjöld sem eru óhjákvæmileg og fullkomlega fyrirsjáanleg loki menn bara augunum og neiti að skrifa þau inn í fjárlögin af því að í fjárlögunum eigi að standa einhver tiltekinn afgangur. Ég held að það sé óheppilegt að fjárlaganefnd taki ekki til við vinnu við fjárlögin fyrr en seint í september og sé á einhverjum maraþonfundum í tvo mánuði í fremur yfirborðskenndri yfirferð yfir frumvarpið.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að fjárlaganefnd Alþingis eigi að koma að ákvörðun um ramma fyrir málaflokkana og að þingið eigi sjálft að láta framkvæmdarvaldið hafa rammana þó að auðvitað séu þeir ákvörðun stjórnarmeirihlutans á sínum tíma. Ef þingið kemur að þeirri ákvörðun er þingið líka bundnara af römmunum og þar af leiðandi þarf það að halda nokkuð aftur af almennri útgjaldagleði sinni sem þvert á orð stjórnarliðsins hér í ræðustólnum er síst minni meðal stjórnarþingmanna en stjórnarandstöðuþingmanna. Ég tel að með margvíslegum slíkum breyttum vinnubrögðum megi í raun og sann vinna að betri fjárhagsáætlunum í ríkisfjármálum sem skili okkur meira aðhaldi og betri rekstri, og að það eigi að vera þverpólitískt mál. Það er ekki spurning um hægri eða vinstri, frjálshyggju eða félagshyggju, að færa áætlanirnar í samræmi við veruleikann og að vinna að því að niðurstaðan sé í samræmi við áætlanirnar en ekki allt að 20 milljörðum frá þeim.