131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:07]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú búinn að vera mjög lengi á þingi með hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, Jóhönnu Sigurðardóttur, þeim merka þingmanni. En mér datt ekki í hug að hún færi að tengja þetta mál stólaskiptum í Framsóknarflokknum. Ég segi það alveg eins og er að mér þykir ekki það vænt um stólinn minn að ég gæti ekki yfirgefið hann og ég þyrfti að svíkja einhvern hóp í þjóðfélaginu til að halda honum. Mér finnst þetta fyrir neðan virðingu hv. þingmanns — ég ber mikla virðingu fyrir dugnaði hennar og færni á Alþingi og baráttu — að blanda þessu saman. Það verð ég þó að segja.