131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:09]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka því sem ég vil segja um öryrkjamálið með þessu:

Það voru ákvæði um að skoða þróun málsins á miðju ári. Þegar við skoðuðum þróun málsins þá þurftum við að setja í forgang framlög vegna fjölgunar öryrkja. Ég vísa öllum svikabrigslum á bug.

Varðandi Landspítalann þá hefur stjórn Landspítalans lagt fyrir mig tillögur um sparnað sem eru að mínu mati framkvæmanlegar. Varðandi þjónustugjöld þá hef ég ekki í huga að taka upp innritunargjöld á sjúkrahús. Ég hef ávallt hafnað því (JóhS: Enga sjúklingaskatta?) og það er ... Hvað kalla menn sjúklingaskatta? Við getum rætt um það. En ef menn tala um sjúklingaskatta, þjónustugjöld fyrir sérfræðinga og komur á heilsugæslustöðvar, (Forseti hringir.) þá getum við rætt um það. En það (Forseti hringir.) er ekki meiningin að taka upp innritunargjöld á sjúkrahús. Ég hef aldrei (Forseti hringir.) haft áform um það.