131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:32]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir lýsti því yfir að hún væri ánægð með skattatillögur ríkisstjórnarinnar sem hún styður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún er tilbúin til að styðja okkur þingmenn Samfylkingarinnar í því að færa barnabætur fram um eitt ár þannig að hækkun barnabóta komi fram nú strax á árinu 2005 en ekki árin 2006 og 2007, eins og um er talað hjá ríkisstjórninni.

Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þess að lækka skatta á matvæli um helming. Mér er það vel kunnugt að hv. þingmaður er áhugasöm um lækkun á matarverði. Það kemur helst til vegna þess að hún er formaður landbúnaðarnefndar og veit hve mikilvægt er að halda niðri matarverði á Íslandi. Í fjárlagafrumvarpinu árið 2005 eru einmitt háar greiðslur undir landbúnaðarráðuneytinu sem ég lít á sem niðurgreiðslu á matvælum, t.d. greiðslur vegna mjólkurframleiðslu upp á 4.588 millj. kr. Það er lítið lægri upphæð en allar barnabæturnar sem hv. þingmaður fjallaði um í ræðu sinni. Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu eru upp á 2.843 millj. kr. og greiðslur vegna grænmetisframleiðslu eru 294 millj. kr.

Allar þessar greiðslur miða að sjálfsögðu að því að lækka matarverðið og má að sumu leyti líta á þær sem niðurgreiðslu á matarverði í gegnum beingreiðslur til bænda.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um annan lið, á bls. 108 í fjárlagafrumvarpinu, lið 04-811 Bændasamtök Íslands. Í þennan lið eiga að fara 433 millj. kr. Á fjárlögum ætlum við að setja 433 millj. kr. til að reka hagsmunasamtök bænda. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún þetta eðlilegt?