131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:50]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Einn málaflokkur sem lendir undir niðurskurðarhníf ríkisstjórnarinnar er grunnstuðningur við ferðamál. Fundin er ástæða til þess að skerða framlög til markaðsstarfs ferðaþjónustunnar úr 270 millj. kr. í 100 millj. kr. Málaflokkurinn í heild sinni fær einungis í kringum 250 millj. kr. á fjárlögum þessa árs, sem er veruleg lækkun frá því sem áður var.

Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein og skilar orðið hvað mestu í gjaldeyristekjum. Hún er líka mjög tengd störfum kvenna. Finnst hv. þm. réttlátt að beita niðurskurðinum á grunnstuðning við þá atvinnugrein sem á mjög lítinn höfuðstól? Stuðningskerfið við aðrar greinar, eins og rætt hefur verið um, landbúnað og sjávarútveg, skiptir hundruðum millj. kr. eða milljörðum kr. eins og í sjávarútveginum, en talin er ástæða til að klípa af ferðaþjónustunni.